19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (1035)

21. mál, skipun læknishéraða o. fl. Bakkahérað

Þorsteinn Jónsson:

Það var út af orðum hv. þm. S.-Þ. (P. J.), sem jeg vildi gera örlitla athugasemd. Honum virðist það víst vera af því, að þjóðin kæri sig ekki um að hafa fleiri lækna, að hjer í þessari hv. deild hefir verið staðið á móti því, að taxti lækna væri hækkaður, en það, að menn stóðu á móti því, var alls ekki af þeirri ástæðu, að deildarmönnum þættu læknar vera nógu margir í landinu, heldur af því, að þeim fanst það vera skylda hins opinbera að hjálpa þeim, sem veikir væru, með því að borga úr sameiginlegum sjóði til lækna. Og þá var hin sjálfsagða leið sú, að bæta fastalaun læknanna, en hækka ekki taxta þeirra. Þessa aðferð álít jeg rjetta. Það er þjóðarhagnaður, að menn geti haldið heilsu og lifað í landinu.

Hvað það snertir, sem hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) sagði, að það hefði ekki verið af trassaskap hv. Ed., að málið dagaði þar uppi, þá verð jeg að halda fast við það, að málið kom nógu snemma til þeirrar hv. deildar, til þess að hægt hefði verið að afgr. það, ekki síst vegna þess, að það var ekkert stórmál, sem hefði þurft að tefja deildina lengi. En hvað því viðvíkur, að inn í þessa deild þurfi að koma 4–5 mál önnur, líks eðlis, ef þetta mál kemst að, þá skil jeg það ekki. Mjer virðist þá koma fram algerlega ósæmileg hreppapólitík. Mjer er það ljóst, að víðar er þörf á læknafjölgun en í hinu núverandi Hróarstunguhjeraði, en hjer fer með slík mál sem margt annað, að það er ekki hægt að koma öllum nauðsynjamálum fram í einu. Allsherjarnefnd leit svo á á síðasta þingi, að skiftingin á Hróarstungulæknishjeraði ætti að ganga fyrir skiftingu á öðrum læknishjeruðum.

Það er svo að sjá, sem háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) hefði ekki hugsað sjer að koma fram með frv. um það, að skifta Siglufjarðarlæknishjeraði, fyr en þetta frv. var komið fram, svo að jeg álít, að sú skifting mætti þá bíða dálítið lengur. Og það verð jeg að benda hv. þm. (St. St.) á, að það á betur við, að greiða þá hreint og beint atkvæði á móti þessu frv., heldur en að koma með frv. vegna þess, að þetta frv. er fram komið, og þar með reyna að fella þetta frv. með því.