20.02.1920
Neðri deild: 8. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Bjarni Jónsson:

Það gladdi mig, að hv. þm. S.-Þ. (P. J.) skyldi vera mjer samdóma um kjördæmaskipunina, en það þótti mjer skrítið, að hann skyldi ekki komast að neinni niðurstöðu út frá því. Hann hugsaði gott til þess, að þm. Reykv. hjálpuðu honum seinna til þm.-fjölgunar í Suður-Þingeyjarsýslu, en eftir skoðun hans verða margir þessara þm. ekki til. Annars er það auðveldur reikningur, að betra er að hafa með sjer 6 atkv. en 2, og ætti hv. þm. (P. J.) þess vegna að vera með fjölguninni, en svo gæti hann líka leitað samninga við þm. Reykv., þannig að Reykjavík fengi nú 5 þm., en Suður-Þingeyjarsýsla 2.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) gat þess til, að mínar till. væru þannig úr garði gerðar, að jeg vildi fjölga alstaðar nema þar, sem andstæðingar mínir eru, og væri jeg þess vegna verri við Suður-Þingeyinga en Reykvíkinga. Nú hefir hv. þm. (Sv. Ó.) heyrt það, að við háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) erum á sama máli, þótt hann ætli að fara á snið við skoðun sína við atkvæðagreiðslu. Annars veit háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fullvel, að þessi ágiskun hans er ekki rjett. En hún getur orðið til þess að skýra dálítið sálarfræðilega afstöðu háttv. þm. sjálfs. Hann vill þá ekki fjölgunina vegna þess, að hann óttast, að mikilsmetinn maður í flokki hans, sem hefir verið forstjóri verkfalla og fleira af því tægi, neyðist þá til að gera fleira fyrir verkamenn en hv. þm. (Sv. Ó.) þykir heppilegt.