23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

12. mál, gullforði Íslandsbanka og bann við útflutningi á gulli

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg býst við að verða mjög stuttorður um frv. við þessa umr., sem er framhald 1. umr., og vænti þess líka, að litlar umr. verði um málið fyr en við 2. umr. Jeg skal að eins gera stuttlega grein fyrir þeirri breytingu, sem fjárhagsnefnd hefir komið fram með, á þgskj. 52.

Nefndin taldi nauðsynlegt að banna útflutning á gulli, en um óinnleysanlegleik seðla var nefndin ekki alveg á einu máli, hvort það væri nauðsynlegt, ef þetta atriði hefði ekki staðið í beinu sambandi við útflutning á gulli. En nefndinni þótti auðsætt, að erfitt mundi að koma í veg fyrir útflutning á gullinu, ef seðlarnir væru ekki gerðir óinnleysanlegir; nefndinni þótti ekki tryggilegt að banna útflutninginn eingöngu. Það eru svo margir vegir til að flytja út gull, þótt það sje bannað. Hjer er, eins og menn vita, ekkert tolleftirlit, og altaf fleiri og færri menn, sem hafa löngun til að brjóta lögin, ekki síst þegar það getur staðið í sambandi við hagsmuni sjálfra þeirra. Þetta gull, sem hjer er í landinu og Íslandsbanki hefir til umráða, er svo lítið, að það mundi ekki geta orðið til neins stórhagnaðar, nema þá að örfáir menn hefðu flutt það út, en það gæti síðar komið í bága við hagsmuni þjóðarinnar.

Af þessari ástæðu er það, að nefndin hefir getað fallist á, að seðlar Íslandsbanka væru gerðir óinnleysanlegir um tíma. En óinnleysanlegleiki seðlanna getur auðvitað haft illar og skaðvænlegar afleiðingar, en út í það skal jeg ekki fara mikið, en að eins benda á það, að ef seðlarnir fengjust ekki innleystir og Íslandsbanki og Landsbankinn þyrftu að flytja út verðmæti fyrir ríkið, og ef Íslandsbanki gæti ekki flutt fyrir Landsbankann, þá myndi svo fara, að seðlarnir íslensku mundu ekki seljast fyrir nafnverð. Þá kæmi fram gengismunur, sem yrði til stórtjóns, ef vjer flytjum meira inn en út, og auk þess þurfum vjer að borga svo margt annað, svo að það mundi að öllu athuguðu verða oss til stórtjóns, en fyrir það hefir nefndin viljað girða með brtt., sem er á þgskj. 52. Nefndin hefir átt tal við báðar bankastjórnirnar, en árangrinum af því samtali verður ekki skýrt frá hjer, við þessa umr., en eins og bent er á í nál., tjáði Íslandsbanki sig fúsan til að yfirfæra fyrir Landsbankann, eftir því sem hann gæti, og þótt nefndin hafi ekki fengið beina yfirlýsingu um, að bankinn vildi ávalt gera það eða gæti það, þá hygg jeg, að ekkert muni verða því til fyrirstöðu á meðan nokkurn veginn standast á innflutningur og útflutningur; breytingin yrði þá fyrst, þegar þetta tvent stæðist ekki lengur á, en vjer vonum, að það verði ekki í bráð, og lítið spor í áttina er það frv., sem hjer kemur síðar til umr.

Að vísu má segja, að með því að gera seðla óinnleysanlega sje framið gerræði gagnvart öllum þorra einstaklinga. Það getur vitanlega orðið þeim til fjárhagslegs tjóns, en það yrði þá helst á þann veg, að þeir töpuðu á gengismun, en á meðan millifærslur geta fengist er þeim ekki þörf á gulli, og til gjaldmiðils hjer innanlands þarf þess ekki, og þegar litið er á, hve gullið er lítið, gæti vel komið fyrir, að landsstjórnin þyrfti að taka þetta gull í sínar hendur, og sá nefndin því ekki annað fært en að leggja til, að þessi bráðabirgðalög yrðu samþ., en þó með þeirri breytingu, að ríkissjóður og Landsbankinn þyrftu ekki að komast í hættu fyrir það, á meðan þeir gætu fengið millifærslur hjá Íslandsbanka.