10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

Rannsókn kjörbréfa

Bjarni Jónsson:

Jeg átti ekki von á, að kosning háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) væri gölluð. En hins vegar þætti mjer gaman, að hann kæmi með gögn sín, svo að hann gæti sýnt og sannað, að það hefði ekki verið á móti vilja guðs almáttugs, að hann bauð sig fram, og að það kæmi í ljós, að þingseta hans sje ekki undir náð komin, heldur að hann eigi fulla heimtingu á henni.

Jeg vil því óska þess hjer í heyranda hljóði, að hann leggi gögn sín fram á lestrarsalinn, til þess að sýna, að hann þurfi ekki að beiðast neinnar hlífðar.