26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

35. mál, rannsókn á innsiglingu að Kaldrananesi og víðar

Flm. (Magnús Pjetursson):

Þannig er háttað landslagi, að þau hjeruð, sem hjer er um að ræða, liggja strandlengis og fá ekki samgöngubót með því að eyða fje til vegagerða, heldur á þann hátt, að fá sem flesta viðkomustaði fyrir skip og báta. En skilyrði fyrir því að fá skip er, að leiðin sje uppmæld. En nú er svo háttað, að einn fjörður þarna, Bjarnarfjörður, hefir talsverða þýðingu sem viðkomustaður smærri skipa, en leiðin hefir ekki enn verið mæld. Það hefir verið margítrekað við mig að koma þessu máli í framkvæmd. Jeg hefi munnlega átt tal um það við stjórnina, að hún ljeti gera það í sambandi við aðrar mælingar á þeim slóðum. En það er ekki orðið of seint, því ekki er enn búið að mæla upp alla staði við Húnaflóa, sem þingið hefir fyrirskipað, t. d. Þaralátursfjörð. Jeg vona því, að háttv. deild lofi þessu máli fram að ganga, svo það verði gert um leið og aðrir staðir við Húnaflóa verða rannsakaðir.