27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Fjármálaráðherra (M. G.):

Já, það gleður mig, að hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) er mjer sammála um, að heimta verði 30 stunda kenslu á viku af barnakennurum, með öðrum orðum hann álítur fyrri lið sinnar eigin till. rangan. En nú skal jeg benda honum á það, að ef haldið er fast í 30 stunda takmarkið, verður það hreinasta tilviljun, hvaða kennarar fá aldursbót og hverjir ekki. Kom þetta greinilega fram hjer í Reykjavík, þar sem sumir höfðu kent 27, aðrir 28, enn aðrir 29 stundir á viku. Eftir 30 stunda skilyrðinu voru þessir allir útilokaðir, en væri nokkur sanngirni í því að láta slíka tilviljun ráða fyrir hinn liðna tíma? Jeg neita því og held því fast fram, að það langhyggilegasta sje það, sem stjórnin hefir gert, að miða aldurshækkunina við það hve nær kennarinn var ráðinn með föstum árslaunum, því að þegar svo er, er óhætt að ganga út frá, að skólanefndirnar sjái um, að kennarar kenni nægilegan stundafjölda á viku.

Sami hv. þm. (Þorst. J.) sagði, að sjer fyndist það rangt, sem jeg sagði, að það væru til þrennskonar kennaraembætti.

Jeg man nú ekki, hvort jeg viðhafði þessi orð, en við það held jeg fast, að þessi barnakennarastörf eru þrennskonar, hver flokkur með mismunandi launum og hækkunarreglum. En eftir till. á að grauta þessu saman, og það get jeg alls ekki fallist á, og legg eindregið á móti, að nokkur breyting verði á þessu gerð á þessu aukaþingi. Jeg efa líka mjög, að stjórnin mundi nokkuð fara eftir þessu, því að vitanlega er ekki hægt að breyta lögum með þingsályktunartill.

Jeg sje af því, sem fram er komið, að þessi viðaukatill. er þannig til orðin, að hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) er faðir fyrri hluta hennar, en hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) síðari hlutans, en báðir hlutar eru að mínu áliti jafnvarhugaverðir.