28.02.1920
Efri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (866)

48. mál, laun embættismanna

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg býst við, að það sje rjett, að sumir póstmanna hafi orðið út undan vegna hinna nýju launalaga, en jeg vildi að eins benda á, að þetta er ekkert einsdæmi um póstmenn. Það er hægt að benda á ýms slík dæmi annarsstaðar. En þetta frv., sem hjer er um að ræða, bætir ekki úr nema svo örlitlu af þessu, og enda vafamál, hvort það er þannig orðað, að það bæti úr þar, sem því er ætlað að gera það. Rjettast hygg jeg að væri því að fella þessa till., en athuga svo fyrir næsta þing í einu lagi, hverju þarf að breyta. Jeg vildi því mega leggja það til, að þetta frv. yrði felt, með það fyrir augum, að athugað verði fyrir næsta þing, hvort veruleg nauðsyn sje á breytingum og þá hverjum. Legg áherslu á, að þetta sje athugað í einu lagi.