14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (975)

2. mál, vatnalög

Bjarni Jónsson:

Hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) svaraði ekki ýmsum efasemdum, sem jeg var í um afstöðu stjórnarinnar til þessa máls. Hann sagði, að ekki hefði unnist tími til að leggja smáfrv. fyrir þetta þing. Þetta virðist mjer ekki vera á neinum rökum reist, þar sem stjórnin hefir þó sjeð sjer fært að leggja vatnalögin fyrir þingið, sem eru vandasömust þessara laga. En mjer er spurn: Hví vill stjórnin ekki leggja fyrir þetta þing frv. um raforkuvirkjun, því að það gildir einu, þótt ekki verði nývirkjun næsta ár; þetta er sjálfsagður hlutur til þess að tryggja líf og heilsu manna, enda er þetta ekki deiluatriði. Allir eru sammála um nauðsyn þessa frv.

Jeg fjekk ekki heldur svar við spurningu minni um virkjun Sogsfossanna. Jeg gat þess, að í fyrra hefði verið samþykt þingsál., sem heimilaði stjórninni fje til rannsóknar á virkjun þessara fossa. Og það er hverjum skynbærum manni ljóst, að fyrst þarf að rannsaka þetta vatnsfall, áður en hafist verður handa. Jeg er hissa á því, að stjórnin skuli ekki hafa hrundið þessari rannsókn neitt áleiðis, svo að þm. geti gert sjer það ljóst, hvort betur mundi borga sig, að landið annaðist virkjun fossanna, eða einhverju fjelagi væri fengin hún í hendur. Um þetta geta að eins sagt lærðustu verkfræðingar, þó ekki rannsóknarlaust, heldur að eins eftir ítarlega rannsókn. Og þessi rannsókn á að fara fram áður en þingið framkvæmir nokkuð í vatnamálunum.

Hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) skírskotaði til þess, að þm. fengju að vita undirtektir þeirra, sem þykjast eiga eignarrjettinn. En þetta er hreint og beint aukaatriði. Því að ef landið virkjaði Sogsfossana til eigin afnota, yrðu þeir teknir, hver sem þættist hafa eignarrjett á þeim. Og það er aðalatriði þessa máls, að virkjunin fari sem fyrst fram. Fyrst á að vinda bráðan bug að virkjun smávatna til eigin afnota, til þess að fólk fái hið bráðasta yl, ljós og fegurð inn í híbýli sín, sjer til unaðar og heilsubótar, en fossaflið verði ekki hengingaról að hálsi landsmanna.

— En hjer í þinginu er flokkur manna, sem er svo bráðlátur, að hann vill láta gera eitthvað; sama hvað er. En jeg álít, að fyrst eigi að rannsaka málið; og til þess, að bráðlæti þessara manna verði ekki að vitleysisflani, vil jeg láta rannsóknina fara sem fyrst fram. Þess vegna furðar mig stórlega á því, að stjórnin skuli ekki hafa getað gert enn þá neitt í þessu máli. Hefir stjórnin beðið vatnastjórnina sænsku að ljá sjer óhlutdrægan og lærðan verkfræðing, til þess að framkvæma þessa rannsókn? Jeg hefi margsinnis lagt það til. Og jeg hefi sýnt fram á nauðsynina á þessu, þar sem hjer eru engir, sem hafa vit á slíkri rannsókn En í Svíþjóð eru þaulæfðir verkfræðingar í þessum efnum, og þaðan væri víst hægt að fá besta ráðunautinn, sem völ er á til þvílíkra rannsókna.

Á þessu ætti að byrja. Síðan ætti að byrja virkjunina undir handleiðslu verkfræðinga; ekki eins, heldur margra, og ekki eitt ár, heldur mörg ár.

Jeg skal ekki fjölyrða um vatnastjórnina. Jeg veit, að jeg er ekki á sömu skoðun sem stjórnin um það atriði. Mjer hefir ekki tekist að koma henni í skilning um þörfina á, að hæfir menn þurfi að stýra slíku vandamáli. Ætti það þó að vera hverjum manni auðsætt, að nauðsynlegt er, að stjórnina annist menn, sem hafa eitthvert vit á vatnamálum. Jeg get vel skilið, að stjórnin hefir ekki komist enn þá í skilning um þetta; þess sáust ýms einkenni á síðasta þingi. En jeg hefi margsinnis bent á það, að vatnastjórnin væri illa komin, ef hún væri ekki í höndum manna, sem vit hafa á vatnamálum.

Þá vildi hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) halda því fram, að það hefði verið of mikið verk fyrir stjórnina að leggja fram frv. meiri hl., sem er vandaðra og betur samið en frv. minni hl. En það er þó sannarlega ekki mikið verk að breyta ákvæði tveggja eða þriggja greina um eignarrjettinn, og að landið megi taka vatn ókeypis. Hjer getur ekki verið tímaleysi til að dreifa, heldur þá hinu, að stjórninni hefir þótt frv. minni hl. betur við sitt hæfi.

Jeg skal leiða hjá mjer að minnast á alt, sem nú hefir sagt verið um þetta mál. Hv. þm. Ak. (M. K.) kvaðst ekki hafa orðið var við þann ótta, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) talaði um. Jeg skal ekki þrátta um það. En jeg hefi þó orðið var við mikinn ótta hjá mörgum manni við afdrif fossamálanna. Og síðast átti jeg tal í morgun við einn af helstu náttúrufræðingum þessa lands um fossamálin. (Jeg skal geta þess, að það var ekki bróðir minn). Hann var mjög áhyggjufullur um afdrif þeirra. Og þar, sem jeg hefi farið um sveitir landsins, hefi jeg víða orðið var við mikinn ótta hjá ýmsum greindari mönnum þjóðarinnar. Jeg skal játa, að það dregur ekki úr mínum ótta, að heyra þm. tala um málið.

Jeg hlustaði nýlega á tal tveggja ungra manna. Þar komu greinilega fram þær tvær stefnur, sem ríkja í þessu máli. Annar hjelt fram þessari heimskulegu stefnu minni og annara, að vilja halda í þjóðernið, gera sjer ekki leik að því, að spilla því eða ofurselja það. Hann óttaðist, að svo kynni að fara, ef virkjað yrði í stórum stíl. Hinn var með mannkærleikann. Það væri fúlmenska ein að þykja vænna um sitt þjóðerni en annara. Við ættum að bráðna saman við alla mannkærleikahelluna í heiminum. Þið þekkið hana kann ske!

Þeir, sem vilja hafa sterka og heilbrigða einstaklinga, þeir vilja einnig hafa sterkar og heilbrigðar þjóðir; því það er eins ástatt um þetta tvent. Hver einstaklingur hefir sitt sjerstaka eðli, hugsun og hæfileika, og eins og er um þjóðirnar. Engir vilja missa einstaklingseðli sitt, og þeir, sem skilja afstöðu þjóða og einstaklinga, þeir vilja ekki láta herða snöruna að sínum eigin hálsi, og glata þeim arfi, sem þeim ber að láta eftirkomendum sínum í skaut.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) talaði um nýmælin í þessu frv. og kvað þau bygð á germönskum skilningi, eða nánar tiltekið, á norskum skilningi. Jeg veit ekki til, að Norðmenn hafi lagt nokkurn skilning í okkar lög, heldur að eins í sín. Og það er alveg nýr fróðleikur að tala um germanskan og rómanskan skilning á íslenskum lögum. Jeg hefi að minsta kosti ekki heyrt slíkt fyr, og vil jeg ekki tefja tímann með því að fara lengra út í það.

Það kann að vera rjett hjá hv. 1. þm. Árn. (E. E.), að þetta mál vanti undirbúning, en það vantar ekki þann undirbúning, sem hann vill veita því. — Þingnefnd hefir ekkert við málið að gera á því stigi, sem það er nú. Það, sem vantar, eru rannsóknir, mælingar og áætlanir, og það er svo vendilega ómögulegt, að þingdeild geti veitt slíkan undirbúning, að mann kynni að furða, að slíku skuli haldið fram.