06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

3. mál, fasteignaskattur

Jón Þorláksson:

Jeg verð að segja það, að mjer sýnist það vera vandræði, að þetta frv., og yfirleitt öll skattalagafrv., skyldu vera samin án þess að jafnframt væru samin frv. um tekjur handa sýslu- og bæjarsjóðum. Menn verða ragir við að ganga mjög langt í skattaálagningu, meðan alt er í óvissu um það, hvort nokkuð er eftir handa sýslu- og bæjarfjelögum.

Viðvíkjandi 9. gr. vil jeg taka það fram, að jeg er mótfallinn henni, enda þótt jeg viðurkenni, að rjett sje að hafa einhverja skatta, sem heimild væri að breyta með ákvæði í fjárlögum.

En þennan skatt tel jeg illa til þess fallinn af tveim ástæðum.

Í fyrsta lagi nemur þessi skattur mjög litlu, svo framarlega sem ekki er um margföldun á skattinum að ræða. Þykir mjer sennilegt, að hann sje ekki meiri en 40.–50. hluti af allri tekjufúlgu hvers árs, og er því mjög illa fallinn til þess að jafna tekjuhalla, sem kynni að verða í fjárlögunum.

Í öðru lagi myndi þessi skattur, eins og hann er hugsaður hjer, lenda á leiguliðum í sveitum, en á eigendum fasteigna í kaupstöðum. Hækkunin mundi gilda fyrir 1 ár í senn, og hlyti eingöngu að lenda á eigendunum í kauptúnum, og verða viðbót við tekjuskatt þeirra manna, er lagt hafa fje sitt í húseignir. Sýnist mjer varhugavert að hafa hreyfanlegan skatt, er lendi á svo fáum mönnum. Vildi jeg því helst, eins og jeg hefi tekið fram, að 9. gr. fjelli burt, en sætti mig þó frekar við brtt. nefndarinnar, ef eigi er annars kost :.