02.05.1921
Efri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

3. mál, fasteignaskattur

Sigurjón Friðjónsson:

Minn fyrirvari í þessu máli táknar í rauninni það, að jeg er á móti því, eins og það liggur fyrir. Að jeg hefi þó ekki komið með sjerstakt álit, eða sem sjerstakur nefndarhluti, stafar að sumu leyti af því, að jeg er ekki vonlaus um, að eitthvað megi lagfæra frv. til 3. umr., og að sumu leyti af því, að jeg hefi viljað vera háttv. frsm., sem hefir lagt mikla alúð við að lagfæra frv., heldur til stuðnings en vandræða, enda satt að segja búist við stuðningi af honum til meiri lagfæringar. Við þétta frv. eins og það nú liggur fyrir hefi jeg fyrst og fremst það að athuga, að skattur sá, sem hjer er verið að innleiða, siglir undir fölsku flaggi; er nefndur fasteignaskattur, en verður í rauninni afnotaskattur, samkv. 2. gr„ að því er snertir land og lóðir. Jeg skal nú ekki segja, að hann sje alveg rjettlaus sem afnotaskattur, en hann ætti þá að koma fram undir því nafni, svo að fær vegur væri fyrir rjett nefndan fasteignaskatt við hlið hans. Því af öllum sköttum álít jeg, að fasteignaskattur sje rjettmætastur og sanngjarnastur. Það var ekki að ástæðulausu, að orðið „staðfesta” skapaðist í okkar gamla góða máli, og að hver sá, sem höfðingi vildi verða og láta að sjer kveða, byrjaði venjulega á því að fá sjer „staðfestu“. Því að þar sem annars er einstaklingseignarrjettur á jörð, er sá, sem engan á jarðarblettinn, nokkurskonar útlendingur, sem hvergi á höfði sínu að að halla, nema fyrir annara geðþótta eða náð, sem venjulegast er dýru verði keypt, og einmitt af þeim ástæðum er fasteign dýrmætari en nokkur önnur eign, og rjettmætari og sjálfsagðari gjaldstofn en hver eign önnur. Allir skynbærir menn ættu nú að vera farnir að sjá og skilja það fyrirbrigði, að alstaðar þar, sem fólk safnast saman og þjettbýlt verður, hækkar landið í verði, sökum hinnar vaxandi eftirspurnar, eigendum að kostnaðarlausu. Og hvað skyldi vera rjettmætari gjaldstofn en þannig tilkomið verðmæti, sem raunar er aðeins afleiðing af samstarfi þjóðfjelagsins, og að mínu áliti þess rjettmæt eign. Jeg get ekki sagt, að jeg sje ánægður með skattamálatillögur hæstv. stjórnar; það er síður en svo. En í þessu máli hefir hún þó tekið rjett spor í rjetta átt, þó að lítið væri, en háttv. Nd. hefir stigið það spor til baka, að því er virðist, af furðanlegu skilningsleysi á málinu. Finst mjer, að þessi hv. deild megi ekki óneydd láta minna kveða að sjer en svo, að stíga þar aftur jafnframt stjórninni, og helst framar, ef kostur er, og býst við, að fram komi tillaga í þá átt til 3. umr. frá mjer, eða ef til vill allri nefndinni eða einhverjum hluta hennar.