11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjhn. (Sigurður Eggerz):

Hæstv. fjrh. (M. G.) furðaði sig á því, að fjárhagsnefndin hefir nú komið með breytingartillögur við tekjuhlið fjárlaganna. En bæði var nú það, að jeg hafði boðað þetta við síðustu umræðu, og svo hitt, að ef við hefðum eigi gert þetta nú, þá myndi það hafa verið gert fyrst, er fjárlögin koma til hinnar einu síðustu umr. í Nd. Og ef þessi deild hefði þá breytt tekjuhliðinni, eða með öðrum orðum hefði viljað hafa áhrif á hana, þá hefði það haft það í för með sjer, að fjárlögin hefðu orðið að komast í sameinað þing. Jeg held því, að það hefði verið æðiathugavert, ef nefndin hefði ekki nú við þessa umr. komið með breytingartillögur við tekjuhliðina. Jeg verð einnig að telja miklu hyggilegra, að háttv. Alþingi fái nú þegar einhverja hugmynd um, hvernig tekjuhliðin muni líta út.

Jeg skildi hæstv. fjrh. (M. G.) þannig, að hann teldi að tekjuhliðin væri of lágt áætluð. En jeg verð að minnast þess, að þegar hæstv. fjrh. (M. G.) var formaður fjárhagsnefndar Nd., lagði hann áherslu á það, að áætla tekjuhliðina ekki of lágt, og um það var jeg honum algerlega sammála, því jeg kærði mig ekkert um neina ábreiðu á tekjuhallann, og var jeg þó fjármálaráðherra þá.

Um fasteignaskattinn er það að segja, að hann hefir lækkað í Nd. í dag, en það vissi nefndin ekki, er hún samdi þessa áætlun, og fyrir því er hann áætlaður svona hátt, en jeg geri ráð fyrir, að hv. Nd. breyti þessum lið aftur, enda var svo um talað við fjhn. Nd., að skattur þessi yrði hækkaður.

Tekjuskattinn hefir nefndin áætlað 650 þús. kr. En hæstv. fjrh. (M. G.) gat eigi verið við hjer í Ed., er jeg við síðustu umr. gaf dálitla mynd af því, hvernig tekjuhliðin myndi líta út, og þá einnig rökstuddi þennan áætlunarlið. (Fjrh.: Gat því miður ekki verið hjer þá). Jeg er alls ekki að ámæla hæstv. ráðherra (M. G.) fyrir það, því að hann var bundinn í Nd., og það er engin von, að hann geti altaf verið hjer.

Jeg gat þess þá, að hæstv. fjrh. (M. G.) hefði áætlað tekju- og eignarskattinn 1 miljón kr., og jeg get ekki betur sjeð en að sú áætlun sje heldur djörf, þar sem skattur af hinum háu tekjum hefir verið drjúgur liður í tekjuskattinum, en nú er ástandið þannig, að gera má ráð fyrir að sá liður muni verða sáralítill, eða fyrst um sinn nálega enginn háskattur. En eins og skattafrv. kom frá stjórninni, er vitanlega lagður hærri skattur á hinar lægri tekjur, og vissa er fyrir því, að sá skattur muni verða allmikill, en varla mun hann vega upp það, sem tapast á háskattinum. Jeg býst við, að hvorki nefndin eða hæstv. ráðherra (M. G.) geti gert ábyggilega áætlun um þennan tekjulið, enda hefir stjórnin í aths. við frv. enga áætlun gert um tekju- og eignarskattinn. En nefndin áleit varhugavert að fara hærra. Og jeg hefi talað um þetta við fleiri þm. í háttv. Nd., og þeir eru á sama máli. Um 3. lið gerði hæstv. ráðherra (M. G.) enga athugasemd, því að hann var áætlaður eins og hjá stjórninni.

En 4. liður, erfðafjárskatturinn, var hækkaður úr 17 þús. kr. upp í 20 þús. kr. Má að vísu búast við, að sá liður geti orðið hærri. Frv. stjórnarinnar hefir hækkað skattinn lítið eitt, en aftur dregið nokkuð úr honum með því að færa suma, sem gjalda áttu skatt í hærra flokki, undir lægri flokk.

Útflutningsgjaldið sagði hæstv. ráðherra (M. G.), að væri of lágt áætlað. En á því furðaði mig dálítið; nefndin hefir talið víst að till. stjórnarinnar um útflutningsgjald yrðu samþ., þannig, að gamla útflutningsgjaldið fjelli niður, annað en síldartollurinn, og að 1% gjaldið af útfluttum vörum yrði samþ. Þetta síðasta gjald hefir nefndin áætlað eins og stjórnin. Aftur hefir nefndin viljað fara varlega með áætlunina á síldartollinum, taldi 200,000 kr. hæfilegt, þar sem að gert er ráð fyrir í hinu nýja síldarfrv. stjórnarinnar, að íslenskir skattgreiðendur fái endurgreiðslu á nokkru af tollinum undir vissum kringumstæðum. En þetta getur áreiðanlega dregið töluvert úr skattupphæðinni.

Tóbakstollurinn var 1919 700 þús. kr., en er nú áætlaður hjá stjórninni í fjárlagafrv. 400 þús. kr., en við hækkuðum hann upp í 500 þús. kr. En í áætlun hæstv. fjrh. (M. G.) er hann 750 þús. kr. En þrátt fyrir það gátum við ekki farið hærra en þetta, því að það má ekki gleymast, hvernig viðskiftahorfurnar eru nú, og að kaupþolið fer minkandi, og allur innflutningur til landsins verður því fyrst um sinn minni, og þá vonandi sjerstaklega á óþarfavarningi.

11. lið, vörutollinn, hefir nefndin áætlað 1 milj. kr., en hæstv. fjrh. (M. G.) 11/2 milj. kr. Nefndin hefir athugað þetta mjög nákvæmlega, en henni hefir fundist óvarlegt að fara hærra en þetta, þrátt fyrir það, þó að tollur þessi hafi verið 1919 1,900,000 kr. — en þá var raunar tunnutollurinn talinn þar undir — en 1920 1,300,000 kr. Vörutollurinn hefir nú í ár verið hækkaður í einum flokki, margar vörutegundir hafa verið færðar milli flokka, úr hærri gjaldflokki í lægri. Jeg geri því ráð fyrir, að breyting sú, sem yfirleitt í ár er gerð á vörutollslögunum, verði ekki til hækkunar á skattinum. Þegar þessa er gætt, og ennfremur tekið tillit til þeirrar kreppu, sem nú stendur yfir, þá er langt frá því, að áætlunin sje sjerstaklega varleg.

Það er rjett hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að annað útflutningsgjald er nokkuð lágt áætlað. Hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) tók fram í og kom þar með þau rök, sem nefndin færir fyrir áætlun sinni. Eins og kunnugt er, er bannaður innflutningur á sumum tollvörum, svo sem konfekt, brjóstsykri og átsúkkulaði, og meðan það bann helst, kemur enginn tollur inn af þeim vörum.

Gjald af konfekt og brjóstsykursgerð þótti hæstv. fjrh. (M. G.) nokkuð lágt að áætla 10,000 kr. og kvað það hafa orðið 30,000 kr. síðastliðið ár. Þetta verður nú samt hvort sem er aldrei nema smáupphæð og hefir lítil áhrif.

Þá þóttu honum símatekjur of lágt áætlaðar. Þær námu 1919 ekki nema 824 þús. kr. (Fjrh.: 1920 1 milj. og 100 þús. kr.). Og nú vissi nefndin, að ekki lítur vel út með tekjur þetta ár. Þröngin í viðskiftalífinu hefir tilfinnanleg áhrif einmitt á þessar tekjur. Og ef ástandið breytist ekki því fyr til batnaðar, þá má ekki gera sjer góðar vonir um næsta ár.

Það er satt að við höfum ekki áætlað neinar tekjur af tóbaksversluninni. Sumir nefndarmenn voru nú hálfvantrúaðir á, að af henni yrðu nokkrar tekjur. Þá sleptum við líka bifreiðaskattinum; við vildum ekki telja það með, sem ekki væri nokkurnveginn víst, að næði fram að ganga, og ank þess á af þeim skatti að mynda sjerstakan sjóð.

Jeg verð að segja það, að yfirleitt var það tilhneigingin hjá okkur að fara eins hátt og við sáum okkur fært, án þess að brjóta í bág við þá góðu, gömlu reglu, að leitast við, að tekjurnar reyndust ekki undir áætlun. Tekjuhliðin hefir eftir áætlun okkar hækkað um 65,000 kr., og er tekjuhallinn fullar 21/2 milj. þrátt fyrir það.

Jeg vona nú, að háttv. deild samþ. brtt. okkar, og að háttv. Alþingi hverfi ekki frá þeirri góðu reglu að áætla tekjurnar varlega. Og það verð jeg að segja, að oft hefir verið gætilegar áætlað en þetta.