19.05.1921
Efri deild: 73. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjhn. (Sigurður Eggerz):

Hæstv. fjrh. (M. G.) talaði um, að ekki væri um toppáætlun að ræða, t. d. á erfðafjárskattinum. En jeg tel það toppáætlun, ef heildin er áætluð of hátt, því að í raun og veru munar sáralítið um smáskatta eins og erfðafjárskattinn, þótt hann yrði lítið hærri en áætlunin ráðgerir. Annars get jeg ekki fallið frá því, að símatekjurnar sjeu áætlaðar of hátt, því að eftir því sem verslunarviðskifti öll verða erfiðari og peningaeklan kreppir meira að, eftir því minkar notkun símans, sbr. og, að símatekjurnar voru 1919 rúmar 800.000 kr. Um vörutollinn má segja hið sama, að hann minkar eftir því sem innflutningurinn verður minni. Og í ár mun hann vera helmingi minni en um sama leyti síðastliðið ár. Og hver býst við öðru en að viðskiftakreppan teygi afleiðingar sínar inn á næsta ár?

Það var rjett hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að hans spádómur reyndist rjettari um niðurstöðu ársins 1919, því að hann var þá bjartsýnni en jeg. En má jeg þá benda hæstv. ráðherra (M. G.) á annan spádóm, spádóm minn um þá örðugleika, sem nú eru að dynja yfir. Má jeg minna hann á, hve mjög jeg barðist gegn síðasta fjárlagahalla og vakti eftirtekt þingsins á framtíðarhorfunum og ógætni þess í fjármálum.

Hvernig fór um þann spádóm? Rættist hann ekki? (Fjrh.: Jeg spáði aldrei öðru). Jeg vildi einskis fremur óska, en að í þetta sinn reynist fjrh. (M. G.) sannspárri en jeg. En því miður er jeg hræddur um, að svo verði ekki.