07.03.1921
Neðri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

45. mál, Sogsfossarnir

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Mönnum kann ef til vill að virðast, að frv. þetta sje nokkuð seint fram borið og að rjettara hefði verið, að það hefði fylgt hinum vatnamálafrv. Enda ekki ofverk stjórnarinnar, úr því það er óbreytt frá milliþinganefnd í fossamálinu. Jeg vona, að slíkt komi ekki mjög að sök, því að fossamálanefndin hefir haft nóg að gera til þessa.

Jeg skal ekki lengja umræður með því að fara út í einstök atriði frv., læt mjer í því efni nægja að skírskota til álits milliþinganefndarinnar.

Þó get jeg ekki stilt mig um að skjóta því til þingnefndarinnar, sem við þessu frv. tekur, hvort ekki mundi rjett að færa heimild stjórnarinnar lengra en frv. gerir ráð fyrir. Samkvæmt frv. er stjórninni gefin heimild til þess að athuga járnbrautarstæði að Soginu. En mjer finst ástæða til, að stjórninni væri einnig heimilað að láta athuga vegarstæði á þessari sömu leið, því að vel gæti það fyrir komið, að of miklir agnúar reyndust á því að leggja þangað járnbraut og tiltækilegt þætti að nota í staðinn vel vandaðan púkkaðan veg, og þarf þá að rannsaka það mál.

Þá virðist og í öðru lagi ástæða til að stjórninni væri heimilað að leita fyrir sjer um fje til fyrirtækisins, í smærri eða stærri stíl, lánsfje á einn eða annan hátt, eða hlutafje. Ef stjórnin fær þessar heimildir, þá ætti að verða mögulegur undirbúningur þess, sem mestu varðar í þessu máli.

Ýmislegt fleira í sambandi við þetta frv. þyrfti og frekari athugunar við, og hefir verkfræðingafjelagið vakið þar athygli á ýmsum atriðum.

Þegar ræða skal um fossavirkjun hjer á landi, þá er mikið undir því komið, að vita. hvaða hráefni eru til í landinu sjálfu, er stóriðnað mætti byggja á. Rannsókn á því efni er mikið undirstöðuatriði allra fossamála vorra.

Á síðastliðnu ári rjeði stjórnin mann — eina íslenska námufræðinginn — til starfa í þessa átt, meðal annars. Stjórnin rjeði þennan mann á síðastliðnu vori til árs, og mælir jafnframt með því, að hann fái hjer fasta stöðu framvegis sem námuverkfræðingur. Það, sem fyrir stjórninni vakti, er hún rjeði þennan mann, var það, að hún taldi nauðsynlegt að rannsakað væri, hvort ekki fyndust verðmæt efni í landinu. Einnig fanst henni rjett að láta rannsaka silfurbergsnámurnar og semja áætlanir um rekstur þeirra og arð, og að rannsaka hvort ekki mundi heppilegt, að ríkið tæki rekstur þeirra sjálft í sínar hendur.

Námuverkfræðingurinn hefir nú þegar byrjað starf sitt. Á síðastliðnu sumri hefir hann rannsakað járn á Vestfjörðum, silfurbergsnámurnar, litunarefni við Geysi o. fl. Hefir hann einnig í vetur haft nógan starfa við efnarannsóknir á því, sem hann hefir safnað.

Mjer þótti rjettast að geta um þetta hjer í þessu sambandi, enda þótt það komi þessu frv. ekki beinlínis við.