12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

45. mál, Sogsfossarnir

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

Jeg skal ekki gefa tilefni til langra umræðna. Vil aðeins leiðrjetta það atriði í fyrri ræðu minni, að fossafjelagið „Ísland“ hefði ráð yfir sextánda hluta efra fallvatnsins. Jeg hefi nú síðan fengið upplýsingar um það, að fossafjelagið „Ísland“ á ekkert í því hinu efra fallvatni, heldur hefir það haft þannig löguð skifti við aðaleiganda Úlfljótsvatns, að það nú á eingöngu í neðra fallvatninu. Ef því sú leið yrði ofan á að virkja efra fallvatn Sogsins, þá tekur það mál alls ekkert til fossafjelagsins Íslands.

Annars get jeg verið hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) þakklátur fyrir það, hve vel hann tók í aðalefni málsins, þó okkur greini nokkuð á um leiðirnar. Skal jeg því ganga fram hjá flestu því, er hann sagði; þó vil jeg drepa á eitt atriði.

Háttv. þm. (Sv. Ó.) sagði, að fjelagið „Ísland“ mundi ekki ráða yfir veigamestri þekkingu um þessi mál. Er það að vísu rjett. En það ræður þó yfir veigamestri þekkingu á efnavinslu í Danmörku. Og núverandi forstjóri þess fjelags mun ráða fyrir stærstu og merkustu efnaverksmiðjum í Danmörku. Og jeg hygg, að í danska fjármálaheiminum hafi þetta fjelag langbesta aðstöðu að því er iðjurekstur snertir, og því held jeg, að ekki sje rjett að hrinda því frá sjer.

Jeg hefi ekkert á móti því, að leitað sje eftir kaupum á vatnsrjettindum þessa fjelags í Soginu, en ef á að taka rjettindin af því eignamámi, án undanfarinnar rannsóknar, þá tel jeg það óviðkunnanlegt, og tvísýnt hvort rjett sje að lögum, eins og hæstv. forsrh. (J. M.) hefir tekið fram. Jeg skal ekkert um það segja að svo stöddu, hvort hagkvæmara væri að virkja efra eða neðra fallvatnið. Til þess er enga afstöðu hægt að taka fyr en að afstaðinni rannsókn. En jeg tel ekki rjett nú að gera neitt það, sem geti gert okkur erfiðara fyrir að virkja neðra fallvatnið, ef til þess kemur.

Jeg þykkist alls ekki við háttv. samþm. minn (J. B.), þótt hann vilji eingöngu hafa ríkisrekstur. Það er stefna þess flokks, sem hann telur sig til.

Þessum háttv. þm. (J. B.) þótti vanta í nál. ákvæði um, að fœrir menn skyldu rannsaka þetta mál. Jeg tel nú slíkt svo sjálfsagt, að ekki hafi þurft að taka það fram. Get jeg ekki neitað því, að jeg hafði hugsað mjer, að áður en rannsókn færi fram, væri fengið samþykki fjármálamanna í fossafjelaginu Íslandi um val manna til rannsóknarinnar. Með því móti væri trygging fengin fyrir því, að ekki yrði sú rannsókn á fallvötnunum vefengd af Dönum. Getur slíkt komið okkur að góðu haldi, því altaf má við því búast, að ef leitað verður til annara landa en Danmerkur um fje til fyrirtækjanna, þá verði þaðan leitað umsagnar danskra fjármála manna um það, hvort fyrirtækið muni vera trygt, vegna þess að Danir eru í heiminum taldir kunnugastir okkar högum.

Um ræðu háttv. þm. Ak. (M. K.) er það að segja, að jeg get verið honum að mestu samdóma um forsendurnar í ræðu hans, en alls ekki um þá niðurstöðu, er hann komst að, að fella frv. Var sú niðurstaða og næsta óskiljanleg.

Jeg get vel skilið það, að menn hafi ekki trú á því, að slík fyrirtæki sem þessi komist í framkvæmd, nema fyrir atbeina erlends fjármagns. Þetta get jeg fallist á, og þetta er líka atriði, sem milliþinganefndin hafði til athugunar, og kom þar til mála einmitt samvinna milli ríkisins og t. d. fossafjelagsins „Ísland“. En við sáum, að þegar til samninga um slíka samvinnu átti að ganga, þá vantaði okkur algerlega þá þekkingu, sem til þess þurfti að geta samið. Við höfðum ekki þekkingu á, hversu miklar kröfur við ættum að gera og hvað mikið skyldi koma þar í móti frá okkar hálfu.

Tilgangur frv. er nú sá að bæta úr þessu og afla þeirrar þekkingar á málinu, sem nauðsynleg er, hvort sem til þess ráðs verður gripið, að ríkið reki eitt fyrirtækið, eða þá ríki og fjelag í sameiningu, eða fjelag einsamalt.