02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

59. mál, sóknargjöld

Sigurður Eggerz:

Hæstv. forsrh. (J. M.) viðurkendi, að aðferð nefndarinnar væri ekki gagnstæð þingsköpum og fordæmi væri til. En hvaða ástæða er þá til að gera veður út af þessu? Það er svo sem ekki verið að grafa þennan gimstein stjórnarinnar. Með brtt. við þetta frv. er hægt að fá efni þess inn, ef það er vilji deildarinnar.

Jeg vil taka það fram, að þegar þessi lög voru sett í upphafi, þá var jeg þeim andvígur. Jeg taldi þessi persónugjöld óheppileg. En nú vill stjórnin blanda saman tveimur „principum“, persónugjaldi og gjaldi eftir efnum og ástæðum. Jeg sje enga ástæðu til þess. Önnurhvor reglan verður að ráða.

Þá er og ein ástæða, sem mælir móti hækkun gjaldanna. Hún er sú, að hækkunin getur gert viðkomandi embættismenn, prestana, óvinsæla, og til þess vil jeg ekki stuðla.

Jeg get vel skilið, að ríkið þurfi tekna, og mun jeg sýna, áður en þingi lýkur, að jeg er ekki á móti því, að ríkissjóður fái þær tekjur, sem hann þarfnast.