14.03.1921
Efri deild: 22. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

86. mál, samvinnufélög

Flm. (Sigurjón Friðjónsson):

Mjer hefir hlotnast sá óverðskuldaði heiður að vera fyrsti flm. að frv. til laga um samvinnufjelög. Jeg segi óverðskuldað vegna þess, að jeg hefi ekki verið neinn meiri háttar forgöngumaður í samvinnuhreyfingunni, og þó einkum vegna þess, að jeg finn ekki mátt hjá mjer til þess að flytja þetta erindi samvinnufjelaganna eins og jeg gjarna vildi. Frá sjónarmiði samvinnumanna er hjer um breytingu að ræða, sem stefnir að gerbreytingu á þjóðfjelagslegu lífi og skipulagi, og þó á fornum og — að hennar áliti — traustum grundvelli. Samvinnufjelagshreyfingin er í sínu insta eðli jafnaðarhreyfing. Af þrem kjörorðum stjórnarbyltingarinnar frönsku: frelsi, jafnrjetti og bróðerni, eru það einkum jafnrjettið og bróðernið, sem hún leggur áherslu á. Til þessa eru meðal annars þau sögulegu rök, að í frelsishugsjónina hljóp nokkurs konar ofvöxtur á 19. öldinni, að sumu leyti fyrir áhrif frá þjóðmegunarfræðikenningum Adam Smiths og lífsþróunarkenningum Charles Darvins og hans fylgifiska, ofvöxtur, sem margir góðir menn hafa óttast, og sem hefir nú að lokum — að margra áliti — átt mjög mikinn þátt í því að leiða hina stórkostlegu hernaðarógæfu síðustu tíma yfir svo að segja allar þjóðir. Samvinnuhreyfingin er þannig í aðra röndina hreyfing á móti auðvaldi og hverskonar yfirgangi, þ. e. jafnrjettis og varnarhreyfing, sem lítur á auðsafnað einstaklinga í stórum stíl sem einskonar rán, og á slíka auðsafnendur sem einskonar stigamenn á viðskiftaleiðum almennings, er noti sjerstakar aðstöður, eða aðstöðuhagræði og yfirtök, til að skapa sjálfum sjer óhófleg laun, eða draga sjer á annan veg óhóflega mikið af almennu verðmæti, öðrum til fjeflettingar og niðurdreps. En í aðra röndina er samvinnufjelagshreyfingin samhjálpar hreyfing, og þá sjerstaklega gagnvart þeim, sem erfitt eiga. Hún setur samhjálpina sem lífskraft upp á móti samkeppninni og yfir hana, og um leið bróðernishugsjónina yfir frelsishugsjónina. Að því leyti, sem samvinnufjelagshreyfingin er jafnrjettis- og jafnaðarhreyfing, vill hún koma á jöfnuði á kjörum manna, ekki þannig, að einn miðli öðrum, hinn ríki hinum fátæka, sem hún skoðar aðeins sem bót á gamalt fat, heldur með því að tryggja hverjum einum fullan ávöxt iðju sinnar, svo sem framast má verða. Hún byggir þannig meðal annars á friðhelgi eignarrjettarins, en skorðar hann (þ. e. eignarrjettinn) við ávöxt eigin iðju á nokkuð annan hátt en alment er. Þar sem nú annar meginþáttur samvinnufjelagshreyfingarinnar stefnir að því að tryggja rjettindi einstaklinga gegn yfirgangi annara, sem einatt er gerður í skjóli misskilinnar frelsishugsjónar, er henni eðlilega fjarlægt að ganga vísvitandi á rjettindi annara. Að svo kann að virðast sumum mönnum í fljótu bragði um ýmsar kenningar hennar, t. d. um skattamál, er því og hlýtur að vera annaðhvort vegna þess, að verkamenn hreyfingarinnar misskilji hennar insta eðli og útfærslu þess, ellegar vegna þess, að mótstöðumennirnir hafa ekki áttað sig á því, hvert stefnt er. Getur hvorttveggja eðlilega komið fyrir, en hið síðarnefnda þó að líkindum fremur og oftar, vegna þess, að skilningsleysi á stefnunni er þó yfirleitt meira þeim megin.

Samhjálparþáttur samvinnuhreyfingarinnar kemur eðlilega strax að nokkru leyti fram í hinni sameiginlegu vörn gegn yfirgangi. En skýrast kemur hann fram í samábyrgðinni. Það stafar því af gersamlegum skilningsskorti á dýpstu rótum samvinnuhreyfingarinnar, þegar henni er ráðlagt að nema samábyrgðina úr gildi, eins og nýlega hefir verið gert af merkum manni á Norðurlandi, þó að því verði raunar ekki neitað, að í samábyrgðinni er fólginn vegur til einskonar yfirgangs, vegur ómenskunnar í einni eða annari mynd, vegur til að liggja uppi á öðrum, sem kallað er, vegur til að lifa yfir efni um lengri eða skemri tíma, á ábyrgð og stundum að lokum á kostnað annara. En samvinnuhreyfingin hefir svo mikla trú á lífskrafti sínum, að hún treystir því, að þessa veiklun geti hún yfirstigið, og þessa trú byggir hún meðal annars á vexti sínum alt til þessa dags. Hún lítur á sjálfa sig sem nýgræðing á vordegi, nýgræðing, sem þegar er vaxinn svo, að mótblástur og áfelli verða honum ekki að bana, eins og nýgræðing, sem þrátt fyrir mótblástur og áfelli hefir þó aðalstrauma vorsins á sínu bandi, strauma hlýinda, trúar og vonar um nýja og betri tíma.

Að svo mæltu vil jeg leggja til, að þessu máli verði vísað til allshn.