18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

94. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Frsm. minni hl. (Pjetur Ottesen):

Jeg hefi í rauninni ekki miklu að svara, og jeg get tekið undir með háttv. þm., að kappdeilur hafi hjer lítil áhrif.

Mjer þótti það leitt, að ræða mín skyldi gefa háttv. þm. Ak. (M. K.) ástæðu til að komast í ilt skap, sem raun varð á; Það er oft sárt að heyra sagðan sannleikann skýrt og afdráttarlaust, og virtist hið fornkveðna sannast á honum, að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Hann var öskuvondur, og bygði vörn sína á reiðiyrðum einum, útúrsnúningum og hártogunum. Hann ljet þá ósk í ljós, að ræða mín hefði verið helguð betri málstað. En það er æfinlega svo, að hverjum þykir sinn fugl fagur, og þó háttv. þm. Ak. (M. K.) þyki minn málstaður lakari sínum í þessu máli, þá er jeg jafnsannfærður um það, að jeg berst hjer fyrir góðum og heilbrigðum málstað, og af heilum hug, og er óþarfi að háttv. þm. (M. K.) að væna mig um óheilindi. Það var rjett hjá háttv. þm. (M. K.), að illur aðbúnaður og miklar vökur hefðu ill áhrif á menn. Mjer hefir aldrei dottið í hug að mæla því bót fram yfir það, sem frekasta nauðsyn krefur, en það er hvorttveggja, að sjómannalífinu er þannig varið, að hjá slíku verður oft og löngum ekki komist, og svo hitt, að það er óneitanlega miklu hyggilegra og affarasælla að bæta líðan manna á sjónum með frjálsu samkomulagi hlutaðeigenda en þvingunarlögum. Það er jeg sannfærður um. Jeg tók þetta einnig fram, en benti á það um leið, að að ýmsu leyti væri síður ástæða til að tala um þetta í sambandi við togara en önnur skip. Þar er allur aðbúnaður miklu betri, og þess vegna eru hásetar færir um að leggja á sig meiri vökur en á öðrum skipum. Við erum báðir sammála um það, jeg og háttv. þm. Ak. (M. K.), að hásetarnir þurfi hvíld, en jeg lít svo á, að þeir sjeu færir um að fá hana af eigin ramleik, enda styðst það við reynslu þá, sem fengist hefir um þetta efni einmitt á togurunum; því óneitanlega er þeim málum nú svo komið þar, það styðst við umsögn fjölda háseta, og því verður ekki neitað, að frjálst samkomulag er einhlítt til þess að skipa þessum málum í sæmilegt horf. Þeir þurfa því ekki að flýja á náðir löggjafarvaldsins, fremur en aðrar stjettir, til að fá leiðrjetting þessara mála. Jeg ljet í ljós ótta minn um það, að þetta hefði óheppilegar afleiðingar á aðrar stjettir, og hefir háttv. þm. (M. K.) ekki hrakið það. En menn geta sagt sjer það sjálfir, að Alþingi stendur ekki fjær að hlutast til um vinnutíma annara verkamanna, og ef fordæmið er skapað, munu brátt fleiri koma á eftir. Fyrir utan þetta er jeg hræddur um, að þessi ákvæði opni leið að illindum og deilum á skipunum sjálfum, og væri þá vissulega ver farið en heima setið. Að vísu mundi mikill hluti íslenskra sjómanna vera svo þroskaður, að hann ynni lengur, ef á lægi, þó lagasetningin væri, en þó er ekki fyrir það að sverja, að einhverjir væru orðnir svo útlærðir úr hinum nýja skóla, að þeir skærust úr leik. Og ef svo færi, risu óhjákvæmilega af því þrætur og innbyrðis arg á skipunum. Allir vita, að þar sem gott samkomulag er á skipum, þar er eins og alt gangi að óskum, en alt fer aftur á móti í handaskolum þar, sem er úlfúð og illindi. Af þessu stafar hættan, og það er ekki síður varhugavert, þegar þess er gætt,að þessi ráðabreytni gæti einnig haft óheillavænlegar afleiðingar fyrir fleiri atvinnuvegi.

Þá hljóp háttv. þm. (M. K.) fram fyrir skjöldu hjá frsm. meiri hl. út af því, sem jeg mintist á þau ummæli hans, að jeg hefði í ræðu minni verið að hræða bændur til að vera á móti frv.

Það var auðheyrt, að háttv. þm. (M. K.) hefir þótt frsm. meiri hl. (J. B.) fara þar nokkuð ógætilega, og hefir honum því fundist ástæða til að reyna að milda málið. En háttv. þm. (M. K.) hlýtur að vera það ljóst, að það er ekki ástæðulaust, þó bændur hefðu nokkurn vara á sjer gagnvart þeim áhrifum, sem ýmsir óhlutvandir menn eru að reyna að koma að og beita til að reyna að spilla sátt og samlyndi stjetta og manna í landinu. Hann sagði og, að öfugmælin í ræðu minni hefðu farið fjöllunum hærra, en það leit út eins og hann væri þar að lýsa sinni eigin ræðu.

Ræðu háttv. frsm. (J. B.) þarf jeg litlu að svara. Hann sagði, að jeg vissi lítið um það, hvernig gengi með samninga hjer milli vinnuveitenda og verkamanna. Það er að vísu rjett, að jeg er því ekki vel kunnugur, hvernig þetta gengur til hjer, en allvel þekki jeg til þess, hvernig þetta gengur til sumstaðar annarsstaðar, og eru vinnuþiggjendur þar engu ver settir til að ná rjetti sínum en vinnuveitendur. En ekki skil jeg annað en að hásetar geti haft í fullu trje við útgerðarmenn, ef þeir hafa í frammi ósanngirni. Það er skemst að minnast á, að í vetur ætluðu útgerðarmenn að breyta kjörum svo, að óskapfelt var hásetum, og jeg veit ekki betur en að hásetar hafi borið þar sigur af hólmi. Jeg sje þess vegna enga ástæðu til, að Alþingi fari að lögskipa það, sem þeim og öllum er miklu heppilegra, að náist á annan veg.