05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (2295)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg veit ekki vel, hvernig á að skilja orð háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), en í mínum orðum lá engin ásökun í hans garð. Jeg sagði að það, að frv. væri eins fram borið og það er, væri af því, að ekki hefði virst vera neinn ágreiningur um það í nefndinni, hvort flytja ætti frv. Hvorki hann, nje heldur háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.), lögðu á móti því, heldur töluðu þeir aðeins um, að breytingar á því væru nauðsynlegar. Að þeir nú snúast algerlega á móti frv., hlýtur þá að stafa af því, að þeir hafi ekki verið búnir að athuga það nógu vandlega, og sjái nú fyrst, að því verði ekki einu sinni við hjálpað með breytingum.

Jeg flyt málið fyrir mína parta alls ekki að órannsökuðu máli, ef háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) á við það. Jeg lýsti því yfir þegar í framsöguræðu minni, að jeg gæti búi.st við, að nefndin myndi koma með breytingar á því til 2. umr., en þær breytingar verða ekki af mínum hvötum.

Og út af því, sem háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) sagði, að gera mætti ráð fyrir mörgum og miklum breytingum, þá vil jeg aðeins benda á, að slíkar breytingar gætu orðið til þess að tefja fyrir málinu, og jafnvel stefna því í voða.

Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að peningamálin væru í slíkri óreiðu og öngþveiti, að til vandræða horfði, og þess vegna ætti ekki að hraða þessu máli, eða eftir því sem mjer skildist, ekki að hraða framgangi þessa frv. Allir háttv. þingdeildarmenn hljóta að sjá, hvílík fjarstæða þetta er og mótsögn í orðum hæstv. atvrh. (P. J.). (Fjrh.: Hæstv. atvinnumálaráðherra er ekki við). Það skiftir engu máli; hæstv. atvrh. (P. J.) getur gert svo vel og setið kyr í sínu sæti, sem honum finst hann vera fæddur til, á meðan menn tala, en vera ekki að snakka við einstaka þingmenn úti í horni.

Það er einmitt með tilliti til peningamálavandræðanna og þeirrar óreiðu, sem þau eru í, að hraða verður fyrir þessu frv.