06.05.1921
Efri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (2472)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg gat þess við 1. umræðu þessa máls, að meiri hluti þingmanna mundi vera orðinn þeirrar skoðunar, að óhjákvæmilegt væri að ríkið tæki lán, á einn eða annan hátt, til þess að greiða úr viðskiftakreppunni út á við. Um meðferð þess lánsfjár hafa mönnum hugkvæmst þrír vegir: 1. að ríkisstjórnin, eða þar til valdir menn, ráðstöfuðu lánsfjenu, sem þó yrði vitanlega gert á ábyrgð ríkisins, en að sjálfsögðu gegn tryggingum. 2. að lánsfjeð yrði fengið Landsbankanum til meðferðar, á ábyrgð hans, og 3. að það sje notað til viðrjettingar Íslandsbanka.

Jeg hafði þau orð um fyrstnefndu aðferðina við 1. umr. þessa máls hjer í deildinni, að hún gæti tæplega komið til mála í alvöru. En nú sje jeg í Alþýðublaðinu, í ritgerð eftir Hjeðin Valdimarsson, og heyri úr fleiri áttum, að ýmsum þyki þetta tiltækilegasta aðferðin. Frá mínu sjónarmiði horfir það, eins og áður, þannig við, að hún sje óálitlegust. Í fyrsta lagi vegna þess, að með því móti yrði lítið eða ekkert bætt úr lánstraustsskorti bankans, og að ábyrgðin af lántökunni kæmi þá líka beinast niður á ríkinu. í öðru lagi vegna þess, að með þeirri aðferð mundi lántaka ríkisins þurfa að verða stærst; og í þriðja lagi vegna þess, að af því leiddi sjerstakan kostnað, nefndarkostnað, því að sjálf mundi ríkisstjórnin vitanlega ekki geta haft þetta með höndum. Og satt að segja virðist mjer árangurinn af nefndarskipunum ríkisins undanfarið ekki vera svo glæsilegur, að hann geti hvatt til þess úrræðis. Um það, að ábyrgð af lántöku kæmi með þessu móti beinast, og jafnvel þyngst, niður á ríkinu, vil jeg bæta því við, að hver hin leiðin, sem farin er, af þessum þremur, verður banki milliliður, sem tekur við ábyrgðarhættunni, eftir mætti, þó ábyrgðin af Landsbankanum hvíli raunar aftur að öllu leyti á ríkinu að lokum. En ábyrgð af Íslandsbanka hvílir fyrst og fremst á hluthöfunum, og þótt ríkið taki þá ábyrgð á sig að nokkru leyti, ef það gerist hluthafi í bankanum, þá heldur hún þó áfram að hvíla á hinum hluthöfunum að hinu leytinu.

Um það, að ríkið þurfi mestrar lántöku við, sje fyrstnefnda aðferðin höfð, er það að segja, að fróðir menn álíta, að þörf muni á 10–20 miljón kr. lántöku — fram yfir það, sem fengið er, að mjer skilst, til þess að til fulls rakni úr viðskiftakreppunni, sem þó er ekki víst, að yrði nema í bráð. Ef ríkið ráðstafaði sjálft lánsfjenu með hinni fyrst nefndu aðferð, virðist liggja næst, að það tæki nefnt lán að mestu eða öllu leyti. En með hvorritveggja hinni aðferðinni getur lántaka ríkisins eða ábyrgð þess á lánum orðið bönkunum, öðrum eða báðum, að bakhjarli, til stuðnings bráðabirgðalántökum, er ríkið sem slíkt hefði ekki beinlínis veg eða vanda af. Um efling Landsbankans er það að segja, að sú leiðin er mjer geðfeldust, og eins og kunnugt er, hefir ríkið þegar styrkt hann til allstórrar lántöku, sem jeg vil segja gott eitt um. En hitt er líka kunnugt, að Landsbankinn treystist ekki til að taka að sjer viðskiftin út á við að öllu leyti, eins og sakir standa, og því síður mun hann treystast til að taka skuldunauta Íslandsbanka á sína arma.

Jeg skal í þessu sambandi geta þess, að Magnús Sigurðsson bankastjóri, sem þó er ekki talinn halda í taum Íslandsbanka um of, hefir sagt við mig, að hann sæi ekki annan veg út úr hinum yfirstandandi vandræðum en þann, að styðja Íslandsbanka til að rísa á legg og taka upp starf sitt út á við af nýju, og jeg ætla að hann hafi sjeð þetta og sagt með rjettu.

Jeg skal nú með þessum formála snúa mjer alveg að því, sem hjer er einkum til umræðu, eflingu Íslandsbanka, og byrja á því að leggja áherslu á, að hluttaka ríkisins í bankanum mundi gera hvorttveggja í senn, fá bankanum starfsfje, þar sem hlutafjeð er, og afla honum trausts út á við, svo að tiltölulega auðvelt ætti að verða fyrir hann að fá það rekstrarfje til viðbótar af eigin ramleik, sem hann annars kann að þurfa.

Þeirri grýlu var skotið fram í Morgunblaðinu 27. f. m., að sú hlutafjáraukning, sem ráðgerð er í frv. af ríkisins hálfu, mundi leiða af sjer eftirspurn hlutabrjefa einstakra manna og verða tilefni til þess, að með þau yrði braskað, svo þau hækkuðu í verði, sem svo virtist eiga að skoðast sem einhver stór hætta fyrir landið. En auðsætt er, að slík eftirspurn væri einmitt talandi vottur um vaxandi traust á bankanum, og einmitt slíkt traust er það, sem allra nauðsynlegast er að fá, eins og sakir standa, enda mundi verðhækkun hlutabrjefa einstakra manna fylgja verðhækkun hlutabrjefa ríkisins að sama skapi, og verður ekki sjeð, að það sje óttalegt.

Fyrir þeim mönnum, er svona hugsa, virðist vaka það, að ágóði sá, er skiftist á hlutabrjefin, hljóti að verða meiri, er þau hækka í verði, og koma fram sem hækkandi skattur á viðskiftin. En það, að ríkinu sje trygður meiri hluti atkv. á hluthafafundi og yfirtökin í stjórn bankans, ætti að vera full trygging fyrir því, að um þetta væri ekki mikið að óttast. Hitt er röksemd, sem meiri ástæða er til að líta við, að skuldasúpu Íslandsbanka kunni að vera þannig háttað, að athugavert sje fyrir ríkið að taka á sig þá ábyrgð á henni, sem það mundi gera með því að gerast hluthafi í bankanum. En til þessa er því að svara, að varasjóður bankans, sem er orðinn mikill, stendur þó fyrst fyrir skuldunum, það sem hann nær, og að áliti kunnugra manna mundi hann nægja fyrir þeim að öllu leyti. En ef svo reyndist ekki, þá hvílir þó sú ábyrgð eða áhætta, sem af því kynni að stafa, áfram á hinum gömlu hluthöfum að hálfu leyti, miðað við, að ríkið legði fram hálft hlutafjeð. Og þó það fengi af þessu einhvern skell, gæti það orðið tilvinnandi, til þess að komast hjá öðrum stærri skelli. En annars er sjálfsagt, að fram fari rannsókn á hag bankans áður en til hluttöku ríkisins kemur, og er vitanlega til þess ætlast.

Þá vil jeg minnast nokkrum orðum á seðlaútgáfurjettinn. Sú skipun, sem um hann er gerð í frv., virðist hafa orðið að ásteytingarefni, einkum þeim mönnum líklega, sem næstir standa Landsbankanum. Nú er það vitanlegt, eða að minsta kosti er um það vitnisburður ýmsra þingmanna úr peningamálanefndinni, að Landsbankastjórnin treystist ekki til að taka þegar við þeim hluta seðlafúlgunnar, sem þeim banka var ætlaður í frv. ríkisstjórnarinnar. Mun hafa verið litið svo á, að seðlaauki Landsbankans mundi renna jafnskjótt út úr landinu, eins og sakir standa, og koma til baka sem nokkurskonar ávísanir á bankann, sem honum mundi geta stafað vandræði af. Að ætla Landsbankanum þegar nokkurn hluta seðlaútgáfunnar, virðist því ekki tiltækilegt. Nú mun á hinn bóginn mega telja það víst, að seðlaútgáfurjetturinn sje Íslandsbanka ekki svo lítil baktrygging, honum til lánstraustsauka, og er því eðlilegt, að honum sje nauðsynlegt, að tryggilega sje um það búið, að þessi rjettur sje ekki harðneskjulega af honum tekinn. En þar sem sterkar líkur hafa komið fram um það, að bankinn mundi hafa gengið inn á þá skipun seðlaútgáfurjettarins, sem stungið var upp á í stj.frv., og þar sem það virðist í sjálfu sjer skynsamlegt og heppilegt, að seðlaútgáfurjetturinn hverfi ekki frá Íslandsbanka í einni svipan, heldur smátt og smátt, ef það annars þykir rjettara að fá hann öðrum banka í hendur, þá virðist ekki ástæða til að stíga út af þeim grundvelli, sem stjórnin hefir lagt að þessu leyti, meira en svo, sem hagsmunir Landsbankans og vilji stjórnar hans gera nauðsynlegt. Þar sem Landsbankastjórnin, svo sem áður er sagt, treystist ekki til að taka þegar við þeim hluta seðlafúlgunnar, sem þeim banka var ætlaður í stjórnarfrv., virðist sá vegur eðlilegastur, sem lagður er með þessu frv. En vel getur verið, að stytta megi þann tíma, sem Íslandsbanka er þar ætlaður seðlaútgáfu rjetturinn allur. Og þó mjer sýnist heppilegra fyrir bankann, að einhverju sje slegið föstu nú þegar um það, hvernig hann skuli afhenda seðlaútgáfurjettinn, og sjerstaklega það, að hann skuli ekki þurfa að gera það sviplega, þá ætti hann þó á hinn bóginn ekki að þurfa að óttast mjög harðneskju af ríkisins hálfu í því efni, þegar það er orðið stór hluthafi í honum. Jeg álít, að ef þingið getur orðið ásátt um aðalatriði þessa máls, hlutafjárbankann, þá megi ekki láta það standa á öðrum atriðum þess, og að um þau eigi menn að sveigja til hver við annan sem allra mest.

Þá vil jeg minnast nokkrum orðum á brtt. þær, sem fyrir liggja. Brtt. á þskj. 452 og 453 eiga það sameiginlegt, að þær kveða skýrt á um það, að rannsókn skuli fara fram á hag Íslandsbanka, áður en ríkisstjórnin ákveður til fulls um hlutafjáraukann. Raunar felst þetta í frv., því án slíkrar rannsóknar getur mat það á hlutabrjefunum, sem 5. grein ráðgerir, ekki farið fram, Og að sjálfsögðu mundi ríkisstjórnin ekki sjá sjer fært að leggja hlutafjeð fram, ef hagur bankans reyndist mjög ískyggilegur. En jeg skal ekki bera á móti, að þetta sje tekið skýrar fram, og get vel sætt mig við hvora brtt., sem er um það efni.

Um brtt. á þskj. 451 er öðru máli að gegna. Jeg er ekki óhræddur um, að þær geti orðið þeim, sem að Íslandsbanka standa, sá þyrnir í augum, sem orðið gæti málinu að falli, og mjer sýnist þær ekki svo þýðingarmiklar frá neinu öðru sjónarmiði, að rjett sje að setja málið í hættu þeirra vegna. Jeg býst því við að greiða atkvæði á móti þeim að svo stöddu. Þó get jeg sætt mig við 1. brtt., og er brtt. okkar háttv. 2. þm. Eyf. (E. Á.) miðuð við það, að sú till. nái fram að ganga.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. landsk. þm. (S. E.) sagði um það, hvernig brtt. okkar Háttv. 2. þm. Eyf. (E. Á.) kæmi við, ef hans brtt. yrði samþ., þá skal jeg taka það fram, að þar er jeg honum ekki sammála. Hann sagði, að brtt. okkar gæti haft þær afleiðingar, að Íslandsbanki hefði mjög mikið fyrirliggjandi af seðlum 1. maí 1922. En á því er, að minni hyggju, ekki mikil hætta. 4. gr. frv. tryggir það, að bankinn mun ekki hafa meira af seðlum í gangi en nauðsynin krefur. Þess vegna er engin hætta því samfara að samþ. brtt. þeirra háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) og háttv. þm. Snæf. (H. St.) við 1. gr. frv., ef brtt. okkar gengur einnig fram.