20.05.1921
Neðri deild: 76. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Háttv. Ed. hefir sýnt af sjer mikla rögg upp á síðkastið við að fella eða spilla góðum málum, sem þessi deild hefir sent til hennar. Jeg skal láta mjer nægja að benda á frv. um vjelgæslu á mótorskipum, sem drepið var þar í deildinni í einhverju bræðiskasti. Þessi Ed.-óburður, sem prentaður er á þskj. 677, er lítils virði, og læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja, hvort hann verður látinn lifa eða ekki, úr því sem nú er komið. Raunasaga þessa frv. byrjaði snemma. Þegar í þessari deild kom í ljós undanhaldssýki hv. þingmanna, og menn eru venjulega ekki vanir að telja eftir sjer sporin, þegar á flóttabrautina er komið. Mjer þótti þetta gegna furðu í þessu máli, því hjer var reynt að marka þá stefnu, að við rjeðum sjálfir, hvernig atvinnuvegir okkar væru reknir. Jeg hefði þó reynt að sætta mig við frv. eins og það fór frá þessari deild, þó því væri mikið spilt hjer frá því sem í upphafi var, er það kom frá nefndinni, þá tjáir ekki að sakast um það nú, því ekki er hægt að breyta frv. hjeðan af í hið upprunalega horf. En það er óheppilegt, að tíminn skuli vera svona naumur, að deildirnar verði á víxl að ganga að frv., sem þær álíta gölluð og bæta hefði mátt úr, ef tími hefði til þess unnist. Jeg held, að frv. þetta sje komið í það horf, að það verði til lítils gagns eða einskis. Jeg vildi helst komast hjá því að greiða um þetta atkv., því þetta frv. verður aldrei annað en neyðarúrræði, úr því sem komið er.