24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2677)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

2677Einar Þorgilsson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að standa upp aftur. En þar sem jeg geri það þó, þá er ástæðan sú, að jeg vil ekki láta þann misskilning óleiðrjettan, að jeg hafi viljað væna hæstv. stjórn þess, að hún vilji vernda einstakan flokk kaupsýslumanna fyrir verðfalli, öðrum fremur.

Ekki vil jeg skrifa undir það, að hv. þm. Ak. (M. K.) skilji ekki mælt mál. En jeg verð að játa, að hann virðist ekki hafa skilið það, sem jeg sagði í ræðu minni. Jeg sagðist hafa verið með innflutningshöftunum síðastliðið ár vegna þess, að þá hefðu ástæður verið svo mjög ólíkar því, sem þær voru nú orðnar á öllum atvinnu- og fjármálasviðum, svo breyttar, að eins og jeg hefði álitið innflutningstakmörkun nauðsynlega þá, vegna verðhæðar og verðhækkunar á útlendum nauðsynjavörum, eins áliti jeg nú sjálfsagt að leyfa óhindraðan innflutning þeirra, vegna þess lækkaða og lækkandi verðs, sem á þeim væri.

Jeg ætla ekki að orðlengja um þetta meira. Hv. þm. Ak. (M. K.) getur gert það, ef hann vill, en hann fær mig ekki til að þrátta við sig. Þarf að minsta kosti að koma með betri rök.