11.03.1921
Efri deild: 20. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2908)

29. mál, einkasala á kornvörum

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt. þá, sem hv. frsm. (S. J.) gat um, af því að jeg kunni ekki við, að dagskráin bæri með sjer neinn blæ af stjettaríg. Jeg vildi gera báðum þeim verslunarstefnum, sem uppi eru í landinu, jafnt undir höfði.

Hjer er að vísu komin fram brtt. frá hv. nefnd um sama atriði, en þótt hún sje til nokkurra bóta, þá kennir þó enn stjettarígs. Ef til vill er það óviljandi. Munurinn sjest á því, að nefndin ætlast til, að málið sje borið undir öll kaupfjelög í landinu og undir Verslunarráð Íslands eitt. En ef jafnrjetti ætti að fást, ætti jafnt að bera það undir alla kaupmenn eins og öll kaupfjelög, því hver kaupmannsverslun er sjerstæð stofnun, alveg eins og hvert kaupfjelag.

Sá galli er og á, að eigi er hægt að benda á neina grundvallaða verslunarþekkingu hjá kaupfjelögunum. Hún finst aðeins meðal kaupmanna og sennilega hjá Sambandi íslenskra samvinnufjelaga. Það á því að áfrýja þessu máli til þeirra, sem minni hafa þekkingu og reynslu, en ganga á snið við hina, sem þekkinguna hafa. Þetta er óviðkunnanlegt. Og ef það liggur svo bak við að telja eigi saman atkvæðin, sem fram koma, og byggja á þeim, þá virðist mjer það muni verða ærið ótraustur grundvöllur á að byggja, ef þessi aðferð er viðhöfð.

Annars skil jeg ekki, hví á að skjóta þessu máli til sýslunefnda og bæjarstjórna. Ekki snertir þetta mál þær sjerstaklega. Það snertir alla landsmenn jafnt. Þegar um svo ákveðna og afdrifaríka stefnubreytingu er að ræða, væri miklu nær að vísa málinu til allrar þjóðarinnar, ef á annað borð er verið að áfrýja því.

Nú vita menn, að mikill meiri hluti þjóðarinnar er á móti landsverslun, og þess vegna er sennilega þetta ráð tekið, að áfrýja málinu til fárra, og þá einkum þeirra, sem útlit er fyrir að hægast sje að vinna með stefnunni.

Og eitt vil jeg minnast á í þessu sambandi. Jeg hefi nú setið á þingi síðan landsverslunin varð til, og enn hefi jeg ekki sjeð einn einasta ársreikning landsverslunarinnar nje athugasemdir endurskoðenda hennar. Jeg skil ekki, að hv. þm. geti fallist á landsverslunarstefnuna, meðan þeim er ekkert kunnugt um reikninga verslunarinnar. Það er nauðsyn fyrir þingið að kynna sjer nákvæmlega, hvernig landsverslunin hefir gengið, áður en tekin er ákvörðun um að láta hana halda áfram í einni eða annari mynd.

Jeg er ekki ánægður með brtt. nefndarinnar og óska því, að mín till. verði samþykt. Og til þess að gera stjórnarráðinu sem ljettast fyrir væri eflaust best að samþ. varatill. mína. Það er hvort sem er sjeð, hvernig fer, og ónauðsynlegt erfiði eru líka peningar, sem spara ber í þessari tíð.