09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

27. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg er nú ekki alveg viss um, að það þurfi að vitna svo mikið í það, að Eiðaeign hafi verið gefin ríkissjóði. Þessi gjöf hefir orðið ríkissjóði býsna kostnaðarsöm. Önnur breytingin, sem þetta frv. fer fram á, er mjög meinlaus. Hin er tekin hjer upp, sjerstaklega fyrir þá sök, að út lítur fyrir, að frv. um breyting á launalögunum, sem hafði þetta ákvæði að innihalda, meðal annars, nær líklega ekki fram að ganga.

Hvort sem breytingin, sem gerð var á frv. í Ed., gengur fram eða ekki, þá hefir það engin áhrif á kenslukrafta skólans, þar eð kennarinn er þar, eftir sem áður, með fastri og ákveðinni tímakenslu. Hjer er bara að ræða um það, hvort eigi að borga honum, sem vinnur eins mikið og fyrri kennarinn, jafnmikil laun. Þetta er ógn lítið atriði fyrir ríkissjóð. Þegar fellur verð á vörum og dýrtíðaruppbót minkar, þá verður munurinn á þessu kaupi ekki ýkjamikill. Jeg sje ekki, að það sje sanngirni við þann mann, sem verið hefir svo lengi í embætti og rækt stöðu sína svo vel, að láta hann bera minna úr býtum en hinn kennarann, fyrir jafnt starf. Og það er alls ekki óþarfi að hafa 3 fasta kennara. eins og skólinn er nú skipaður.