19.02.1921
Neðri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (3027)

22. mál, vatnsorkusérleyfi

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Þetta frv. er af sama toga spunnið og það síðasta, sem við vorum að afgr. Þarf jeg því litlu við að bæta greinargerð þá, er frv. fylgir.

Árið 1919 var hjer á þingi kosin nefnd í máli þessu, og lagði hún fyrir hv. Nd. álit sitt í frv.formi. Frv. það, er nú liggur fyrir, er að formi til bygt á frv. þingnefndarinnar, en að efni til tekið tillit til frv. annars minni hl. milliþinganefndarinnar, og er í athugasemdunum gerð grein fyrir öllum breytingum frá frv. þingnefndarinnar.

Stjórnin gengur út frá því, að sjerleyfi til virkjana stærri vatnsfalla verði í rauninni nokkurskonar samningur milli stjórnarinnar og sjerleyfisbeiðanda, og að í sjerleyfi verði oft að haga sjer sem um semst, innan þeirra takmarka, sem lög heimila.

Enn fremur gengur stjórnin út frá því, að það sje mjög æskilegt fyrir land og þjóð, ef fjelög eða einstakir menn vildu og treystu sjer til að verja fje og kröftum til þess að virkja eitthvað af okkar stærri fallvötnum.

Þess vegna hafði stjórnin fyrir augum að gera sjerleyfislögin að vísu sem tryggilegust fyrir hagsmuni þjóðarinnar, en þó um leið sem minst fráfælandi fyrir þá, sem hefjast handa til þess að brjóta ísinn í fossavirkjun hjer á landi. Og allra síst vildi stjórnin, að smáagnúar í lögunum yrðu til fyrirstöðu sjerleyfis- eða virkjunarsamningum.

Að svo mæltu legg jeg til, að frv. þessu verði vísað til fossanefndar.