28.04.1921
Neðri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (3090)

84. mál, vextir

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Það er ástæðulaust að hafa langa framsögu í þessu máli, enda litlu við það að bæta, sem stendur í nál.

Nefndin var í talsverðum vafa um það, hvort æskilegt væri, að Alþingi nú lögleyfði að hækka vexti á útlánsfje. Jeg býst við, að hv. flm. (Gunn. S.) líti öðruvísi á þetta, og mun hann þá að sjálfsögðu gera grein fyrir sinni skoðun, og þá kannske ástæða til að svara honum.

það virðist svo, sem þessi ákvæði sjeu ekki sjerstaklega þýðingarmikil, þegar svo er litið á, að hin almennu viðskiftalög ættu að nægja.

Sjerstaklega finst nefndinni það athugavert, að vextir af fasteignalánum fari hækkandi. Enda er jafnan álitið, að slík lán sjeu þannig úr garði gerð, og þau svo tryggileg, að sjaldan sje hætta nein á því, að þau tapist.

Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu, að því aðeins gæti hún fylgt frv. þessu, að brtt. næðu samþ. Að vísu get jeg lýst því yfir fyrir sjálfan mig, að jeg legg ekki svo mikla áherslu á það, hvort fyrri brtt. sje samþ. eða ekki, en ef seinni brtt. nær ekki fram að ganga, þá greiði jeg hiklaust atkv. á móti frv.

Það er þýðingarlaust að fjölyrða frekar um þetta; geymi það heldur þangað til hv. flm. (Gunn. S.) hefir skýrt sínar ástæður, ef hann skyldi þá eitthvað hafa fram að færa máli sínu til stuðnings, sem ástæða er til að svara.