27.04.1921
Neðri deild: 56. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í C-deild Alþingistíðinda. (3274)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg gleymdi að geta þess í gær, þegar jeg skýrði frá þeim skýrslum, sem stjórnin hefir safnað í þessu máli, að geta um, hve mikið verðmæti lægi í óseldum og ógreiddum fiski í byrjun desembermánaðar. Það leiðbeinir mönnum í því, hvernig stjórnin þá leit á hag landsins út á við, einmitt þegar hún var að undirbúa bankamálið. Af 8 þúsund tonnum af allskonar fiski frá 1919, sem til útflutnings var á árinu 1920, var komið í verð í byrjun desember um 5/8, en um 3/8 lágu í umboðssölu, og þá helst á Spáni, eða voru á leið til útlanda. Það hefir ekki verið hægt að fá upplýsingar um, hve mikið var greitt af fiski þeim, er í umboðssölu lá. Af framleiðslu 1920, hjer um bil 25 þús. tonnum, voru 13 þús. tonn komin í verð, en hitt var á leiðinni eða lá hjer á landi. Þennan fisk átti þá landið á þessum tíma og ógreitt mun hafa verið verð fyrir um 20 þús. tonn, og þegar þetta stóð svo, voru horfurnar með fisksölu ekki svo óálitlegar. Þess ber og að gæta, að á sama tíma var mikið óselt af gærum og ull, og af þessu dró stjórnin þá ályktun, að ef alt gengi eins og útlit benti til, þá væri að mestu eða öllu hægt að losna úr fjárhagsvandræðunum, að minsta kosti í bráð, fyrir þá fúlgu, sem fengist við sölu þessara afurða. En horfumar á fisksölunni versnuðu stöðugt, eftir að kom fram á þetta ár. þessa get jeg til uppfyllingar skýrslu þeirri, er jeg gaf í gær.

Þá er að minnast á bankastjóra Íslandsbanka. Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) áleit, að nauðsynlegt yrði að skifta um, því að þeir hefðu svo oft verið frá störfum fyrir sakir veikinda, eða að öðru leyti frá verkum, að mein hefði hlotist af.

Bankastjórarnir hafa ekki verið veikir svo teljandi sje, eða jeg viti, fram að miðju ári 1920, og ekki verið fjarverandi meira en nauðsynlegt var bankans vegna. Það ætti því illa við að menga þá nokkuð um vanhirðu eða hyskni í stjórn bankans. Og ef átt er við Sighvat bankastjóra Bjarnason, af því hann fjekk frí sjer til heilsubótar, á það sjerstaklega illa við. Jeg hygg það allra manna mál, að hann hafi lagt sjerstaka alúð í starf sitt og verið við það hvíldarlaust frá því hann tók við, lengur en heilsan leyfði. Það var ekki fyr en í ágúst í fyrra, að hann fjekk sex mánaða frí sjer til heilsubótar. Þetta tel jeg mjer skylt að taka fram. Eins er um Tofte bankastjóra. Hann hefir sýnt sjerstaka alúð og elju í starfi sínu, enda þótt hann sje heilsuveill, og hefir furðulítið verið frá störfum. Jeg vil því vísa á bug öllum fordómum um bankastjóra Íslandslandsbanka í þessa átt.

Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að í nál. stendur, að nefndin hafi ekki átt kost á að ná tali af einum bankastjóranna, og er það vafalaust Sighvatur, en það hefir þá verið af hlífð nefndarinnar við hann, en ekki af því, að það væri ókleyft. Sighvatur Bjarnason hefir getið þess við mig, að hann hefði verið fús til þess að hafa tal af nefndinni síðan hann kom heim, 16. þ. m., og er hann það enn. Jeg teldi því hyggilegt, að nefndin notaði sjer þetta boð og hefði tal af honum áður en lengra er farið.

Þá vil jeg minnast á ræðu hv. 1. þm. Árn. (E. E.) í gær örfáum orðum. Hann krafðist þess, að stjórnin hefði lagt fram ítarleg og tæmandi ráð til þess að losa Íslandsbanka úr kreppunni, en jeg hefi fært rök að því, að ekki var rjett af stjórninni að fara lengra en hún fór með frv. um ráðstöfun seðlaútgáfurjettarins. Það hefir líka komið í ljós nú, að ekkert hefði við það unnist, þó að stjórnin hefði lagt fram frekari till. Þingið hefir ekki verið svo fljótt að afgreiða það, sem fyrir lá, og afdrifin hafa ekki verið svo glæsileg, að freistandi hefði verið að bæta nýjum till. við. Annars þykir mjer hv. þm. (E. E.) gera óþyrmilegri kröfu til stjórnarinnar en til sjálfs sín. Allan þann tíma, sem liðinn er frá því málið var lagt fyrir og þar til það kom til 2. umr., hefir háttv. þm. (E. E.) haft til íhugunar, en hann hefir enn ekki komist að neinni niðurstöðu, sem aðrir gætu fallist á. Hann er líklega sammála meiri hl. nefndarinnar um það, að stjórnarfrv. eigi ekki að ganga fram, en hitt veit hann ekki, hvað á að koma í þess stað. Hann ta1ar um að frelsa bankann frá falli, en hvernig það á að gerast hefir hann enga hugmynd um; að minsta kosti eru till. hans í öfuga átt.

Þá gat hv. þm. (E. E.) um það, að Íslandsbanki þyrfti að hafa fengið fullvissu um það lánstraust erlendis, sem nauðsynlegt er, áður en stjórnarfrv. næði fram að ganga. Að öðrum kosti telur háttv. þm. (E. E.) ekki fært að ganga að því. Þetta er ósanngjörn krafa eins og á stendur. Bankinn hefir reynt að tryggja sjer lánstraust, en ekki tekist. Það er heldur ekki von til þess. Alt er í óvissu um aðgerðir þingsins og á meðan er ekki von, að erlendir bankar vilji lofa neinu ákveðnu. Menn vita það, að Íslandsbanki er háður íslensku löggjafarvaldi, og hefir það hag hans í hendi sjer. Hluthafarnir vita þetta, en þeim er ekki á sama hátt umhugað um bankann eins og margir halda. Þeir vita, að hann muni altaf bjarga hlutafje sínu, og þá skaðast þeir ekki. Ef Íslandsbanki verður að stöðva viðskifti sín, kemur það fyrst og fremst niður á skuldunautunum, íslensku þjóðinni. Þegar um það er talað að bjarga Íslandsbanka, þá er það ekki gert vegna hluthafanna eins mikið og vegna alls viðskiftalífs í landinu. Þá krafðist hv. þm. Árn. (E. E.) þess, að stjórnin hefði látið rannsaka allan hag bankans, helst fyrir þing. Það verður nú að fara varlega í það að tefla lánstrausti hans og aðstoð erlendis í hættu, en svo yrði gert, ef farið hefði verið að ráðum hv. þm. og opinber rannsókn skipuð á bankanum. Til þess ráðs má ekki gripa, nema brýnasta nauðsyn krefji, en þó verður að fara varlega í það. Þessi rannsókn var líka ekki alveg nauðsynleg, því að hægt hefir verið að fá upplýsingar um það, sem mestu máli skiftir, á annan hátt. Stjórnin hefir fengið þær og nefndi hefði getað fengið þær hjá stjórninni og bankanum sjálfum. Jeg hefi boðið þetta fyr, en nefndin hefir ekki leitað eftir miklum upplýsingum hjá stjórninni.

Háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) talaði um, að undir stj.frv. hefði vantað þann grundvöll, að Íslandsbanki gengi að því, eða yfirleitt, hvort bankinn teldi þetta nægilegt til að viðhalda og endurreisa lánstraust sitt.

Það var auðvitað, að hjer gat ekki verið á þeim grundvelli að byggja, að maður hefði skýlausa vissu um viðskifti bankans eftir að fyrirkomulag frv. væri komið í kring. En líkurnar hafa verið upplýstar, bæði í aths. við stj.frv. og á annan hátt.

Háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) hefir nú látið það í ljós, að hann vilji bjarga Íslandsbanka, svo að hann þurfi ekki að stöðva störf sín, heldur komist úr kreppunni. En vill þó ekki í seðlamálinu ganga inn á annað en framlenging um eitt ár á núverandi bráðabirgðafyrirkomulagi og heldur ekki að samþykkja tvö mikilsvarðandi atriði í frv., um yfirfærslurnar. Hvaða grundvöllur er þá undir hans skoðun og tillögum í málinu?

Jeg hygg, að yfirlýsing bankastjóra Íslandsbanka skeri best úr þessu. Þeir geta ekki gert sjer neinar vonir um, að bankinn geti haldið áfram störfum með þessu bráðabirgðafyrirkomulagi um 1 ár, og alls ekki að yfirfærsluskyldan haldist óbreytt.

Jeg get skilið þetta, og jeg hefi það einnig frá þeim bankastjóranum, sem nefndin hefir ekki getað talað við; hann telur þetta hiklaust ógerlegt.

Þá kem jeg að ræðu hv. frsm. (Jak. M.), en jeg skal játa, að jeg náði ekki öllu, sem hann sagði, enda var margt af því stílað sjerstaklega til fjrh. (M. G.), svo þess vegna mun jeg ekki svara nema sumum atriðum hans, enda hefi jeg að nokkru leyti skýrt þetta mál, eins og það horfir við frá stjórninni, og hjer liggur ekki fyrir til umr. annað, en þetta bráðabirgðafrv. um framlengingu, en ekki sjálft stj.frv.

Háttv. frsm. (Jak. M.) telur stj.frv. heldur óljóst orðað viðvíkjandi toppnum á seðlaútgáfunni. Má vera, að frv. sje ekki nægilega ljóst, en þá mátti lagfæra það í þinginu, ef mönnum sýndist svo. En það er ljóst, að tvö árin til 31. mars 1923 átti Íslandsbanki að hafa toppinn á seðlaútgáfunni. Hitt er ef til vill ekki eins fyllilega ljóst, hvernig um hann færi eftir að farið væri að draga inn meira af seðlaútgáfunni. En jeg skil það svo, að þá ætti toppurinn að vera hjá stjórninni eða Landsbankanum.

Sakargift þeirri, er hv. frsm. (Jak. M.) kastar á okkur ráðherrana alla, viðvíkjandi upplýsingum frá Kaupmannahöfn, þarf jeg ekki að svara, því hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hefir gert það. Hann getur ekkert hafa haft eftir mjer, og jeg neita því algerlega, að jeg hafi farið með ósannindi og blekkingar í þessu máli. Jeg vissi ekkert um þessi skjöl, fyrst eftir að þau komu, svo hafi eitthvað verið eftir mjer haft, þá hefi jeg sagt það á undan, og það svo valdið misskilningi.

Svo var það um frv. og hafði hann þá eftir mjer, að mismunur á stj.frv. og þessu frv., væru aðeins smávægileg fyrirkomulagsatriði. Jeg hefi aldrei hugsað það, hvað þá sagt það. En jeg tók það fram, þegar jeg var að tala um frv. stjórnarinnar, að það legði grundvöllinn, sem byggja yrði á, ef Íslandsbanki gæti erlendis fengið það lánstraust, sem hann þyrfti til athafna sinna. Þess vegna átti þetta að ganga á undan, og annað, er tíminn kynni að leiða í ljós, varð að vera auk þessa.

Þetta er hrein afstaða í málinu, og má ekki blanda saman við það, hvernig árferðið hefir síðan fallið, og hvað nú er komið í ljós að þurfa kunni hjer að auk.

Það sem fjrh. (M. G.) sagði í þessu sambandi, var í fullu samræmi við það, að verið væri að hjálpa bankanum til sjálfshjálpar, því það er aðalatriðið fyrir bankann að hafa fastan grundvöll undir fótum með sínum seðlaútgáfurjetti, svo hann bjargist sem mest af sjálfsdáðum.

Hv. flm. (Jak. M.) sagði, að stjórnin hefði orðið á eftir tímanum með að átta sig á því, hvernig sakir stóðu. Um þetta má deila eins og svo margt annað. Það er rjett, að tímarnir breyttust, en hvað veit hann um það, að stjórnin hafi orðið á eftir tímanum? Þetta eru fullyrðingar, sem hann á líklega bágt með að standa við, enda altaf hægra að sjá á eftir, hvað betur hefði mátt fara. Þá var ekki komið eins í ljós og nú fyrir neinum, um nauðsyn til þess að hjálpa bankanum með lánum eða ábyrgð. Og þegar svo var komið, að á slíku tók alvarlega að bóla, þá var komið undir þing eða jafnvel þing komið saman, og þá auðvitað sjálfsagt að láta þingið fjalla um málið.

Háttv. frsm. (Jak. M.) segir bankann ekki fremur sjálfbjarga fyrir till. stjórnarinnar og ráðstafanir hennar. Þessu hefir háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) mótmælt. (Jak. M.: Hvað veit hann um það?). Hann hefir mótmælt því með þeim rökum, sem jeg býst við að hv. frsm. (Jak. M.) geti ekki hrakið.

Það er nú komið að fundarlokum, enda flest það fram tekið, sem jeg vildi sagt hafa. Hafi jeg gleymt einhverju, verður sjálfsagt nægur tími til að koma með það á morgun, því að þessari 1. umr. verður að líkindum frestað, svo jeg get sest niður nú.