13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í C-deild Alþingistíðinda. (3299)

136. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Eiríkur Einarsson:

Jeg hefi altaf verið þeirrar skoðunar, að heppilegast væri að koma bráðabirgðaskipulagi á peningamálin, eins og þau eru nú á sig komin. Jeg vil nú samt geta þess, að jeg get vel unað við þetta frv. og aðhylst það, þótt það fari fram á annað og meira en bráðabirgðaskipun. En það verður jafnt að koma á bráðabirgðaskipulagi um seðlaútgáfuna, þótt þetta frv. verði samþ., því að þar eru engin ákvæði um fyrirkomulagið fyrst um sinn, ef og að svo miklu leyti sem frv. kemur ekki til greina eða framkvæmda. Er því bráðabirgðaskipulagið samhl. því frv., sem nú er til umr., nauðsynlegt, og geri jeg síðar frekari grein fyrir því. En að öðru leyti vil jeg alls ekki raska frv. eins og það liggur fyrir frá hv. flm.

Mjer hefir verið borið á brýn, að jeg vildi Íslandsbanka ekki vel. Jeg hefi nú, með því að lýsa fylgi! mínu við þetta frv., sýnt það berlega, að jeg vil ekki koma bankanum fyrir kattarnef, því að í þessu frv. er ýmislegt, sem styður hag hans. Hann fær trygðan seðlaútgáfurjett um langt áraskeið, hann fær vonarbrjef um hlutafjáraukningu frá ríkinu og aðra hjálp þess, ívilnun um greiðslur til landssjóðs, vægari tryggingarskilyrði o. s. frv. Má sjá, að það er mjög fjarri því, að gengið sje á rjett Íslandsbanka. Hann er mjög studdur með því öllu saman.

Það má vera, að einhverjir kunni að spyrja, hverju það sæti, að jeg, sem var á móti stj.frv., sje þessu frv. hlyntur, sem þó svipar mikið til stj.frv. Til þess liggja góðar ástæður og gildar. Eru fyrst og fremst í þessu frv. ýms ákvæði, sem ekki eru í hinu, og öll til bóta. Eftir þessu frv. kemst stjórn Íslandsbanka undir innlend yfirráð; eftir því á fram að fara rannsókn á hag bankans, og fleira mætti telja. Svo er og annað, sem mjer þykir mikils um vert, en það er, að mjer er kunnugt um það, að stjórn Landsbankans er hlynt þessu frv. Telur hún það hafa þá kosti fram yfir stj.frv., að hún álítur það aðgengilegra. Þótt ekki væri annað en þetta, að Landsbankinn telur þetta frv. viðunandi umfram annað, sem fram er komið í málinu, eykur því vitanlega mikið gildi í mínum augum. Hvert er fremur að leita til umsagnar og leiðbeiningar um slíkt málefni, og það því fremur, sem landsstjórnin sjálf er svo á reiki um málið, sem raun er á orðin? Þessu gefa hv. þm. ekki nægilega mikinn gaum.

Þótt sitthvað megi að frv. finna, mun jeg greiða því atkv. mitt, en áskil mjer rjett til að koma með brtt. til síðari umr., er mundi þá einkum lúta að bráðabirgðaskipulaginu, eins og jeg hefi getið um.

Jeg hefi ekki skilið fyllilega aðstöðu manna til hv. Ed. og ótta þann og undirgefni, sem kemur fram í því. Jeg held, að þessi deild geti látið það liggja á milli hluta, hvernig hv. Ed. tekur í frv. Það kemur í ljós á sínum tíma. Og fanst mjer hv. frsm. (M. K.) gefa þeim herrum óþarflega undir fótinn eða hálfgert vonarbrjef um afslátt, ef á þyrfti að halda. Jeg held þess vegna, að flestir hv. deildarmenn geti snúið sjer að þessu frv., rætt það og íhugað; það liggur fyrir nú, en ekki Ed.frv.