16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í D-deild Alþingistíðinda. (3740)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Flm. (Bjarni Jónsson):

Það er nú mál til komið fyrir mig að svara þeim ákúrum, sem beint hefir verið til mín og komið hafa sitt úr hverri áttinni.

Mjer þykir hv. þm. gera mjer hátt undir höfði að setja mig á bekk með stjórninni, með því að beina ákúrum sínum til mín.

Jeg ætla mjer þá að snúa mjer fyrst að síðustu ræðunni og halda svo fram eftir. Hún hefði átt að hafa fyrir einkunnarorð: Ull — ull — og aftur ull. Jeg bjóst líka við, að hún yrði svo, og að hann mundi ekki gera neinar nýjar athugasemdir við ræðu mína, aðrar en þær, er áður voru fram komnar.

Háttv. þm. (J. Þ.) var sjerstaklega samþykkur hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) í fjármálastefnunni. Hann, sem talaði svo fagurlega um Reykjavíkurlífið og taldi það vera eina ráðið til að komast úr kreppunni að draga saman seglin. Það skilst mjer hann ætli vera einu leiðina til þess að bjarga íslenska útvegnum, að setja skipin upp þangað til búið er að spara upp í hallann, sem orðið hefir á útgerðinni. Það er skemtileg tilhugsun, að ef þessir hv. þm. komast í kröggur, þá mega þeir ekki heyra nefnt lán. Þessir hv. þingmenn vita fult eins vel og jeg, að fjárkreppan stafaði af því, að fje festist fyrir Íslandsbanka, af ástæðum, sem hvorki bankinn nje landsstjórnin gat átt neina sök á.

Sakir þess, að aflinn liggur óseldur hálft árið, þarf þessi atvinnuvegur að fá lán til að veiða fiskinn, í skarðið fyrir það fje, sem er fast í aflanum. Og þetta lán þarf að nota til að geta rekið útveginn aftur.

Það er ekki satt, að útvegurinn borgi sig ekki, eða sje ekki arðsöm atvinnugrein, því að hann hefir borgað sig með hinum háa kostnaði, ef skipin hefðu altaf verið að veiðum. Og það hefði verið fullnægjandi að láta togarana fá kol; þá mundi útvegurinn hafa margborgað sig, því þá hefðu þeir ekki þurft að eyða tíma og leggja í kostnað við að sækja kol til Englands, en hefðu þá getað verið stöðugt að veiðum. Og landsstjórnin hefði átt að gera það, úr því hún gat það.

Jeg hjelt því fram í dag, að þó að stjórnin hefði ekki sjeð fjárkreppuna fyrir eða hverjar afleiðingar hún mundi hafa, þá átti hún að taka lán og ljá bönkunum fjeð, í stað þess fjár, er fast var, til þess að halda uppi atvinnuvegunum. Slíkt lán mátti hvíla á bönkunum, en landsstjórnin ein gat fengið það.

Hæstv. fjrh. (M. G.) skaut því fram í dag, hvers vegna jeg hefði ekki gert tillögu um það í bankaráðinu, að Íslandsbanki tæki lán. Jeg gerði það, en bankinn gat það ekki, og einmitt þess vegna kom jeg að máli við stjórnina, að hún tæki slíkt lán til þess að hjálpa báðum bönkunum, til að halda þeim gangandi.

Þeir, sem þekkja til með ísfiskið, vita, að það hefir steypt fjárhag fyrirtækjanna og ekki annað. Ef útvegnum væri hjálpað svo, að þeir þyrftu ekki að stunda það, þá mundi hann bera sig, þrátt fyrir þennan óheyrilega tilkostnað. Að draga saman seglin, eða stöðvun á atvinnuvegunum, get jeg ekki tekið í alvöru. En jeg hygg, að það sje eina rjetta leiðin að taka nauðsynlegt lán til þess, að útvegurinn geti haldið áfram. Það yrði heldur illa ástatt hjer í Reykjavík, þar sem 1/6 hluti bæjarbúa lifir af þessari atvinnugrein, og úti um land, í sjávarþorpum, bæjum og borgum, sem eru að myndast. Jeg hefi ekki reiknað út, hvað mikill hluti landsmanna það er, sem af honum lifir, en ef sá atvinnuvegur ætti að leggjast niður um tíma eða draga saman seglin, þá mundi mörgum búanda þykja þröngt fyrir dyrum, er þeir kæmu að heimta mat og lífsviðurværi.

Hitt var enginn að tala um, að taka lán og troða því upp á bankana, heldur að stjórnin hefði hjálpað þeim að útvega rekstrarfje, sem þeir hefðu ekki getað fengið. Mundu þeir hafa orðið fegnir, ef þeir hefðu fengið rekstrarfje, einkum ef það hefði komið á rjettum tíma.

Um lánið erlendis, að með því hefði unnist gengi, þá er það meining mín, ef það hefði verið borgað í Danmörku í dollurum og lánið tekið til 10 ára og endurgoldið með dollurum. En ef heldur hefði þurft að borga gengismismun, þá vaxtalaust lán í 10 ár.

Jeg held, að þeir herrar færist of mikið í fang, er þeir halda á lofti því líkri fjármálaspeki, til þess að losna við að greiða atkv. gegn stjórninni. Ummæli þeirra hefðu að öllum líkindum aldrei komið fram, ef till. mín væri ekki til umr. og atkv. síðar.

Það kann að vera rjett hjá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að nauðsyn beri til þess, að bankarnir sjeu trygðir gegn gerræði stjórnarinnar. En það er einkennilegt gerræði að bjóða mönnum fje til láns þegar þess er þörf. Jeg get ekki sjeð, hvernig sjálfstæði bankanna hefði verið í voða, þó að stjórnin hefði boðist til að útvega þeim fje. Jeg hygg, að þeir hefðu tekið því boði fegins hendi, og það eru því hrein öfugmæli, að þetta hefði verið misbeiting valds af stjórninni.

Sami hv. þm. (J. Þ.) gerði sjer mat úr því, er jeg sagði, að þeir bæru ekki skyn til að sitja á þingi, sem ljetu skoðanir sínar stangast í allra augsýn eins og mannýga hrúta. Þetta stend jeg við, og er hv. þm. (J. Þ.) það óviðkomandi, við hverja átt er, en hitt get jeg látið hann vita, að seint mun jeg kalla hann til sáttasemjara milli mín og flokksbræðra minna, þótt okkur kynni að bera eitthvað á milli.

Sami hv. þm. (J. Þ.) fann ástæðu til að þakka stjórninni fyrir ýmislegt, og þar á meðal var afstaða hennar til sendiherra erlendra ríkja á Íslandi. Í þakkarrausi sínu kom hv. þm. (J. Þ.) upp um sig með tvennu móti. Hann sýndi það, að honum þykir heldur bagi að því en hagur, að Ísland fái fulla viðurkenningu og hún verði heyrinkunn. Jeg gat þess, að stjórnin hefði ekkert gert til þess að fá hingað senda erindreka með „diplomatiskri funktion“, og var hv. þm. (J. Þ.) mjög ánægður með þá vanrækslu stjórnarinnar. Hann kom því upp um sig einnig, að hann man ekki það ákvæði sáttmálans, að Danir fara með utanríkismál Íslands í umboði þess. Ísland getur þess vegna falið dönskum sendiherrum umboð, og sýnir með því erlendum ríkjum fulla hæversku, en þarf ekki að senda legáta út um allan heim, eins og hv. þm. (J. Þ.) óttaðist. Kostnaður Íslands við að gefa þetta umboð er mjög smávægilegur, aðeins pappírskostnaður, og er undarlegt, að slíkt skuli vaxa í augum hv. þm. (J. Þ.). Jeg hjelt, að hann væri vanur að handfjatla stærri peningaupphæðir.

Þá kallaði hv. þm. (J. Þ.) það hótfyndni af mjer að tala um myntsláttu, vegna þess, að ekkert gull væri til í landinu. Jeg hefi ekki farið fram á annað en að samninga hefði verið leitað, og gat það aldrei skaðað, að þeir væru um garð gengnir, ef vjer vildum taka myntsláttuna í hendur vorar síðar. Ef þessir samningar hefðu verið gerðir við Norðmenn og Svía, og eru þeir málsaðiljar þeir, sem um er að ræða, hefðu þeir verið mintir á, að Íslendingar væru þess umkomnir að semja sjálfir um sín eigin málefni, og auk þess hefði verið gott að hafa þessa samninga til taks, þegar á þarf að halda.

Þakklæti hv. þm. (J. Þ.) var mikið og einlægt, en þakklátastur var hann hæstv. forsrh. (J. M.) fyrir það, að hann færi ekki að mínum ráðum. Það kemur engum við, nema hæstv. ráðherra (J. M.) einum, hverjum ráðum hann hlítir, og er óþarfi af þriðja manni að láta það til sín taka og senda þakkarávarp, þótt t. d. ráðum mínum sje hafnað. Jeg vona, að sá illi grunur, sem hv. þm. (J. Þ.) bar til hæstv. ráðherra (J. M.) um, að hann hefði þó farið að ráðum mínum áður, höggvi ekki skarð í vináttu þeirra, og takast þar sennilega sættir.

Hv. þm. (J. Þ.) lagði áherslu á það, að enn væri ógerningur að greiða atkv. um stjórnina, því menn vissu ekki, hverja afstöðu þeir tækju til stórmálanna, sem hún bæri fram. Mönnum ætti að vera það vorkunnarlaust að hafa kynt sjer málin svo, og auk þess er ekki að vita, hvernig stjórnin kann að snúast í þeim málum áður en lýkur. Jeg geri ekki ráð fyrir, að hún verði jafnræktarsöm við afkvæmi sín eins og hæstv. forsrh. (J. M.) við fátækralögin, en hitt mun sönnu nær, að hún fari að dæmum þeirra kvikinda, sem verst eru, að hún eti afkvæmi sín.

Hv. þm. (J. Þ.) var stjórninni mjög þakklátur fyrir frv. um Sogsfossana. En jeg má þá segja eins og karlinn, sem stakk brókunum í ljórann í sólskininu, og sagði: „Þú skeinst ekki í töðuna mína í gær.“ Stjórnin tók ekki eins vel í þetta mál fyrir 1–2 árum, er jeg og aðrir vorum að berjast fyrir því. (J. Þ.: Var stjórnin ekki önnur þá?). Önnur að vísu, en höfuðið hið sama, og hv. þm. (J. Þ.) veit, að eftir höfðinu dansa limirnir, eða svo fórst honum í ræðu sinni.

Frestur er á illu bestur, hugsa þeir eflaust, hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) og fleiri. Þeir eru hvorki með nje móti, eru svo sem ekki neitt, en tína saman hagalagða til þess að leggja á vogarskálina. Höfuðástæðan er þetta: Við þurfum frest. Stórmálin eru ekki rædd, segja þeir, afstaða er ekki tekin. Jeg hygg, að þetta höggvi fullnærri þingsóma manna, að gera ráð fyrir mörgum mánuðum til þess, að þeir geti tekið afstöðu, og er þetta eðlilega borið fram af þeim, sem taka ekki afstöðu nema tilneyddir. Þá er sama eðlis mótbáran, að erfitt yrði að skipa nýja stjóra á þessu mannfátæka landi, sem þeir svo nefna. Og hæstv. stjórn heldur einnig, að hún sje fær um að veita forstöðu málum þjóðarinnar. Jeg verð að segja, að margt fellur Íslendingum þungt fyrir brjósti, ef þeir geta ekki fundið menn, sem þeir geta treyst til að framkvæma vilja þingsins. Og er þessi ástæða einber hjegómi, því þingið væri ekki fært um að ákveða um meðferð mála, ef enginn hv. þm. væri fær um að framkvæma hana.

Jeg hefi borið fram þessa tillögu til þess að forvitnast um, hvort stjórnin hefði nægilegt fylgi eða ekki. Hún er eins í þágu stjórnarinnar sem annara, því það er sannkallað Sysifosarverk fyrir stjórnina að starfa og vera þess óvitandi, hvort hún hefir traust meiri hluta eða ekki. Og þetta verður enn verra, þegar stórmál eru á döfinni, og þess vegna þurfa að koma fram hreinar línur nú, áður en þau koma til umr. fyrir alvöru.

Jeg vil ekki taka þátt í deilum þeim, sem orðið hafa um dagskrá hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), en hitt dylst mjer ekki, að hún er á engan hátt óþingleg. Þinghrekkur getur hún kallast, og er slíkt ekki óvenjulegt. Það hefir komið fyrir oftar en einu sinni, að þm. hafa tekið upp frv., sem búið var að taka aftur, og það til þess eins, að njóta þeirrar ánægju að fella það. Það er engin ástæða til þess að gera úr þessu stórglæp, en sá er siður minna gömlu vina, Heimastjórnarmanna, að hrópa og hljóða, þegar við þeim er ýtt. Þarna er dauðasyndin, æpa þeir, með enn fleiri syndir á samviskunni. En þær fyrirgefa þeir sjálfum sjer.

Þá kem jeg að hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.). Hann hjelt, að jeg hefði borið fram till. til skemtunar, en það var ekki tilgangur minn. En umr. hafa orðið til skemtunar, og var þó ræða hv. þm. (Þór. J.) sjerstaklega spaugileg. Hann hjelt því fram, að atvinnurekstur hefði verið með tapi öll síðustu árin, og veit jeg ekki, hve langan tíma hann átti við. En nú á að vinna upp þetta tap með því að stöðva allan atvinnurekstur, eða svo hygg jeg, að menn hafi skilið hv. þm. (Þór. J.).

Sami hv. þm. (Þór. J.) hjelt, að fjárkreppa Íslandsbanka stafaði af því, að hann hefði lánað í vitleysu, en þetta eru ranglátir dómar. Kreppan stafaði af því, að verkun og sala afurðanna tafðist af ófyrirsjáanlegum ástæðum, og er ekki rjett að atyrða bankann fyrir það. En skammir hefði hann átt skilið, ef hann hefði neitað að lána nauðsynlegt fje til atvinnuveganna. Það er alkunna, að útvegur þarf að lifa á lánum helming ársins, því afurðirnar seljast ekki jafnt og þjett, heldur mestmegnis síðara hluta sumars og á haustin, en þá í stórum stíl. Kaupsýslumenn liggja ekki heldur með fje sitt, það borgaði sig ekki. Þeir setja það í fyrirtæki og geta þess vegna þurft á lánum að halda, þótt þeir eigi fyrir þeim, og miklu meira en það, í raun og veru. Útveginum er nauðsynlegt að geta fengið lán, og má þá ekki heimta of háar tryggingar, og jeg er þess fullviss, að togararnir lægju ekki við landfestar, ef handbært fje væri fáanlegt. Því hefir verið haldið fram, að útgerðarmenn væru fallnir frá því að taka lán, en jeg veit ekki til, að það hafi við neitt að styðjast. En í sambandi við þetta má geta þess, að hallæri það, sem nú ríkir, er að nokkru leyti tilbúið af viðskiftahöftunum, og því er haldið við af þeim. Hverjum í hag? Þeim í hag, sem eiga dýrar vörur og gætu ekki selt þær sama verði, ef innflutningur væri frjáls og ódýrari vörur flyttust inn. En þó að kaupmennirnir græði þannig á viðskiftahöftunum, vilja þeir láta afnema þau. Þeir segja: Burt með viðskiftahöftin, því þó að það sje tap vort, viljum vjer geta fengið nýjar vörur og hætt að vera blóðsugur á almenningi. Þetta hafa kaupmenn sagt við mig, og efast jeg ekki um einlægni þeirra. Viðskiftahöftin halda við dýrtíð í landinu, og þess vegna getur verkakaup ekki lækkað. Þess er engin von, að menn vilji láta lækka kaup sitt meðan þeir verða að gefa mikið af peningum fyrir allar nauðsynjar, en það mundi auðsótt, ef vöruverð lækkaði. Ef verkakaup gæti lækkað með þessu móti, yrði það útgerðinni hinn mesti hagur, og eru þetta viturlegri ráð en að draga saman seglin og leggja atvinnuvegina í kalda kol.

Stjórnin hefir framið þær tvær höfuðsyndir, að taka ekki lán, og halda of lengi í viðskiftahöftin. Þegar vörur tóku að falla á erlendum markaði, gátu þau ekki orðið til annars en ills eins, því enginn hygginn kaupmaður hefði keypt mikið inn á slíkum tímum.

Jeg sje enga ástæðu til að amast við því, að menn fái að njóta þess lánstrausts, sem þeir hafa erlendis, og er því rangt að hefta viðskifti þeirra, þótt þeir greiði ekki út í hönd. Jeg býst við því, að þeir hv. þm., sem jeg hefi svarað um hríð, játi í hjarta sínu, að þetta sje rjett, og leggi það til, að viðskiftahöftin verði afnumin, og þeir vilja sennilega nú, að höftin hefðu aldrei verið lögð á. Jeg hjelt því fram, þegar dagskrá hv. þm. Borgf. (P. O.) var til umr. í fyrra, að hún væri ónauðsynleg, lögin, sem fyrir voru, væru fullnægjandi. En menn höfðu þá það fjármálavit, að gefa orðum mínum engan gaum.

Hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) vildi skýra orð mín svo, að jeg vildi láta stjórnina taka lán til að bjarga vitfirringum. Jeg veit ekki, hverja hann nefnir því nafni, en ef það eru útgerðarmenn og atvinnurekendur yfirleitt, er þetta harður dómur og heimskulegur. Þessir menn eiga ekki einir sök á, hvernig farið hefir, og þó að þeim megi um kenna að einhverju leyti, ber að gæta þess, að sjálfsskaparvíti eru ekki betri en önnur, og það er gagnslítið að fárast um orðinn hlut. Hitt væri viturlegra, að reyna að draga úr því, sem orðið er, og koma í veg fyrir, að meiri skaði hljótist af. Hv. þm. segja gjarnan, að ef þetta hefði verið svo og svo, þá væri alt eins og það ætti að vera nú. En það er þýðingarlaust að segja „ef“. Það verður að ganga út frá ástandi eins og það er, en ekki eins og það hefði verið, ef —.

Hv. þm. (Þór. J.) talaði hjer um flokkaskiftingu og grautarpotta, og lá þá nærri að álykta, að hann væri grautarkökkur í slíkum pottum. En hv. þm. (Þór. J.) hefir reiðst þessari saklausu ágiskun og hellir yfir mig skömmum og persónulegum brigslyrðum, sem ekkert koma þessu máli við. En jeg læt mjer slíkt hjal í ljettu rúmi liggja.

Þá verð jeg að beina máli mínu til hæstv. stórnar, því hún hefir gert mjer það hátt undir höfði að ávarpa mig öðru hvoru. Mjer leið ekki illa undir þessum ræðum, ef jeg undanskil ræðu hæstv. atvrh. (P. J.), og var það ekki mín vegna, heldur hans. Það er leiðinlegt á þingi, sem hefir það í þingsköpum sínum, að enginn þm. megi greiða atkv. með fjárveitingu til sjálfs sín, að upp skuli rísa hæstv. ráðherra og lýsa yfir því, að hann greiði atkv. gegn vantraustsyfirlýsingu á stjórnina. Jeg segi þetta ekki af þeim ástæðum, að jeg hafi hugsað mjer að græða á afstöðu hans, því vitanlega eru ráðherrarnir í raun og veru með sjálfum sjer, en það væri viðkunnanlegra, að þeir greiddu ekki atkv. Þegar úrslit eru orðin um till. mína, má segja um stjórnina, að hún sitji í vantrausti þingsins eða í trausti þess, en um hæstv. atvrh. (P. J.) verður ekki annað sagt en að hann sitji í sjálfstrausti.

Hæstv. atvrh. (P. J.) gerði vel í að bjóða sitt sæti. En jeg hefi ekki borið tillöguna fram til þess að losa þessa stóla handa mjer nje neinum vissum mönnum. Þingið sker eflaust úr, hverjir þá eiga að skipa. Mjer þótti furðulegt, þegar hann var að tala um óþol manna og hin sífeldu stjórnarskifti frá því 1907. Þetta gæti landið ekki þolað og það væri afaróheppilegt í þessu mannfátæka landi. Það er satt, að landið er mannfátækt, ef það getur ekki skipað þessi sæti nýjum mönnum. En það er ekki rjett af hæstv. atvrh. (P. J.) að segja, að það sje ekki hægt að losa ráðherrasæti, því þjóðin eigi þá enga til að setja í þau.

Það er ekki rjett, sem hann sagði um dygð hjúanna, því enginn hefir, mjer vitanlega, efast um dygð hæstv. ráðh. (P. J.). Það er um hæfileika þeirra, sem menn hafa efast. (Atvrh. P. J.: Jeg var ekki að svara þingmanninum). En jeg er að svara ráðherranum.

Hæstv. ráðherra (P. J.) sagði, að það væri langt frá því, að óþarfaeyðsla hefði verið viðhöfð með innflutningsnefndinni; þvert á móti hefði verið of skamt farið; það hefði verið sparað lögreglueftirlit. Er það þá svo að skilja, að hver hafi flutt inn það, sem hann vildi? Jeg fullyrði, að þau útgjöld, sem leiddu af innflutningshöftunum, hafi verið gersamlega óþörf eyðsla. Sjerstaklega var skömtunin, eins og hún var hjer, auglýst með þriggja mánaða fyrirvara, óþörf. Enda er nú svo, hjer í þessum bæ, að aldrei eru sýndir seðlar, og allir geta fengið alt seðlalaust. Úti um sveitirnar birgja menn sig upp til vetrarins á haustin, eins og menn vita. Þetta er því alldýrt og óþarft fálm.

Hæstv. ráðherrum hefir líklega ógnað, hvað jeg var mjúkmáll í fyrri ræðu minni, og því allir sent mjer hnútur, nema hæstv. forsrh. (J. M.). Jeg ætla þá að reyna að verðskulda þær mest.

Hæstv. atvrh. sagði, að jeg hefði farið með Gróusögur og krafist sannana á þeim af stjórninni. En þetta er ekki satt. Það vill svo vel til, að jeg hefi þessi ummæli mín skrifuð. Þau hljóða svo:

„.... leikur jafnvel orð á, að ekki sje leitað lægsta eða besta boðs, heldur sjeu starfsmenn landsins látnir versla við það og selja því samkepnislaust .... “

Um þetta sagði jeg, að nú gæfi jeg stjórninni tækifæri til að sanna, að þetta væri ekki svo. Því þennan orðróm getur stjórnin auðveldlega ósannað. Hún þarf ekki annað en sanna, að hún hafi samkepni, og hvaðan hún sje. — Jeg minnist þess, að jeg kom með tilboð fyrir nokkrum árum frá Eriksson. Það er sænskt fjelag, sem verslar með talsímagögn. Jeg hefi aldrei vitað til þess, að hjer hafi verið verslað við það, en annarsstaðar, bæði í Noregi og Svíþjóð, er mikið verslað við það, Jeg get trúað, að landið versli ekki við þetta fjelag sökum þess, að það sje betra að versla en allir aðrir.

Hvað snertir síldarmálið, þá hefi jeg aldrei efast um, að hæstv. atvrh. (P. J.) hafi haft áhuga á því. En það er víst, að hann tók ekki í taumana er þurfti. En þetta skoða jeg ekki sem varmensku, heldur stafa af skorti á hyggindum og þar af leiðandi getuleysi til að vera atvinnumálaráðherra.

Ummæli hans um kolin þóttu mjer undarleg, þar sem jeg tók það fram, að jeg væri einn af þeim fáu, sem aldrei hefði getað legið stjórninni á hálsi fyrir þær ráðstafanir.

Hæstv. atvrh. (P. J.) talaði um stjórnarfrv. líkt og aðrir. Jeg hefi áður svarað því og vil ekki fara að endurtaka það.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, þá get jeg ekki betur sjeð en að ef það er frá tíð fyrirrennara hans, þá sje undarlegt, að hann framkvæmdi það, hafi hann ekki sjálfur haft þá skoðun. (Fjrh. M. G.: Jeg hafði þá skoðun). Jeg fjekk ekki tækifæri til að víta það í tíð fyrirrennara hans. (Fjrh. M. G.: Hann fjekk tækifæri til þess). Jeg fjekk ekki tækifæri til þess. Annars víti jeg það, sem mjer finst aflaga fara, hvort sem sá, sem hlut á að máli, er flokksmaður minn eða ekki.

Upplýsingar þær, sem hæstv. fjrh. (M. G.) gaf um það, að hann hefði ekki borgað manninum veittan styrk, af því hann hefði ekki þurft hans, eru einskis virði. Því það var sú aðferð, sem jeg fann að, að neita að borga styrk, sem í fjárlögunum stendur.

Um innflutningsnefndina vil jeg taka fram, að á þingskjalinu stendur, að hún skuli skipuð, ef knýjandi nauðsyn sje til. En hæstv. stjórn á eftir að sanna, að það hafi verið knýjandi nauðsyn til þess.

Jeg skal láta hæstv. fjrh. (M. G.) og Esóp um tófusögurnar. Jeg hefi aldrei eignað mjer þær. Það eru mörg hundruð ár síðan þær voru gerðar.

Um lánið og bankana hefi jeg getið í öðru sambandi.

Jeg kem nú síðast að þeim, sem fyrstur var, hæstv. forsætisráðherra (J. M.). Mig rak í rogastans, þegar hann sagði, að þessi tillaga hefði tafið þingstörfin, og óforsvaranlegt væri að bera hana fram. Það er nú ekki langt síðan hún kom fram, og ekki mikill tími, sem fer í hana, þótt hún sje rædd hluta dagsins í dag og á morgun. Hún tefur því ekki. Og ef stjórnin flýgur út úr þessum eldi sem nýr gullgljáandi Fönix, þá er ekki annað hægt að segja en það hafi verið tilvinnandi, að þessi tillaga kom fram. — Jeg hefi ekki verið að dorga, en jeg vil einmitt koma í veg fyrir dorg með henni, bæði frá stjórnarinnar hálfu og hinna, svo ekki verði hægt að segja um þetta þing, að þar hafi menn altaf verið að reyna að veiða, veiða væna keilu úr sjó. Jeg drýgi einmitt þingtímann, en spilli honum ekki, með þessari tillögu.

Hæstv. forsrh. (J. M.) sagði, að jeg hefði verið með vífilengjur um traustsyfirlýsingu. Jeg skil ekki, hvernig hann getur talað um vífilengjur í því sambandi, þar sem jeg sagði aðeins, að hægt hefði verið að ná takmarki því, er jeg stefni að, með því að bera fram traustsyfirlýsingu, en skýrði jafnframt frá, hvers vegna jeg ekki gat farið þá leið. Og hæstv. forsrh. (J. M.) sagði svo reyndar, að hann gæti ekki búist við öðru en vantrausti frá mjer.

Hæstv. forsrh. (J. M.) hjelt því fram, að það væri ósvífni af þeim, sem ekki styddu stjórnina, að leggja henni lífsreglur. Það er þá ósvífni að leggja það fyrir stjórn, sem menn óskuðu að hún gerði, ef menn ekki styðja hana. Þetta er sú nýjasta ósvífni, sem jeg hefi heyrt. Stjórnin er ekki neinn dýrlingur. Og það er svo langt frá því, að í þessu fælist nokkur ósvífni, því jeg lýsti jafnframt yfir því, að jeg fylgdi stjórninni, ef hún færi eftir því, sem jeg legði fyrir hana.

Það var svo margt í ræðu hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að jeg vil ekki þreyta menn á að karpa um það alt.

Um utanríkismálin mun jeg tala þegar þau koma frá allsherjarnefnd. það, sem jeg finn að, er, að hæstv. forsrh. (J. M.) hefir ekki unnið að því að notfæra sjer rjettindi þau, sem oss eru veitt í 7. gr. sambandslaganna. En fyrir þetta sama flytur hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) stjórninni þakkarávarp, og hann sjálfur far sjálfsagt þakkarávarp fyrir þetta þakkarávarp. Jeg vil ekki jaska þetta tilboð frekar.

Að geta staðið einir og leggja fram fje, sagði hæstv. forsrh. (J. M.) að væri takmarkið, sem ætti að stefna að. Jeg er honum alveg sammála; við eigum að stefna að því að geta staðið einir. Spursmálið er aðeins, hvort stjórnin hefir farið þá rjettu leið til þess að ná þessu takmarki.

Íslendingar hafa nú reyndar altaf staðið einir. Þeir hafa aldrei fengið hjálp hjá öðrum. Því jeg tel ekki það, sem þeir hafa tvisvar eða þrisvar fengið hjálp af gjafakorni. Þeir hafa þvert á móti altaf þurft að berjast við óhagstæð utan að komandi öfl, sem drógu úr starfi landsmanna.

Hæstv. forsrh. (J. M.) sagði, að það ætti að byggja og endurbyggja, styrkja og endurbæta atvinnuvegina með hygni og sparsemi. Jeg hefi aldrei sagt, að ekki ætti að spara, heldur hitt, að það verði að taka lán til þess að lána útgerðarmönnum fje hálft árið. Enginn segir, að það ætti að taka lán í vitleysu. Að stjórnin tók ekki lán sýnir, að hana hefir vantað yfirlit yfir ástandið á þeim tíma, er hún gat fullnægt þörfinni með lántöku. Það er ekki vafi á því, að hún gat fengið lán þegar kreppan var í byrjun, og með því hefði hún getað afstýrt henni. Að hún ekki gerði það sýnir, að hún var ekki fær um að stjórna, og jeg vil segja, að hún með því hafi komið landinu í þetta öngþveiti. Það er höfuðsyndin. Og úr því hún hefir gert þetta, þá verður að fá aðra til að taka við og reyna að kippa þessu í liðinn. Því að hafa gert vitleysur vekur ekki traust í framtíðinni. — Jeg vil svo ekki tala frekar um þetta nú. Jeg ætla að molda þá, sem dauðlegir eru, — nema auðvitað ráðherrana, sem eru ódauðlegir, — því jeg sem flm. hefi leyfi til að tala þrisvar, og ætla jeg að nota mjer það.