18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í D-deild Alþingistíðinda. (3905)

108. mál, símagerð og póstgöngur í Dalasýslu og Barðastrandarsýslu

Hákon Kristófersson:

Úr því að hv. aðalflm. (B. J.) sýnir mjer þann sóma að segja, að jeg hafi hjer framsöguna. vil jeg gera nokkra grein fyrir fyrirspurninni á þskj. 360. Eins og auðvitað er, er tilgangurinn aðeins sá, að fá það skýrt frá hæstv. stjórn, hvað hún ætlast fyrir í þessu máli.

Um allmörg ár hefir það verið mesta áhugamál manna vestur þar að fá síma, ekki einungis um þetta umrædda svæði, heldur alla leið frá Búðardal og vestur Barðastrandarsýslu. Og þetta er þarna, sem annarsstaðar, eitt þeirra lífsskilyrða, sem viðurkent er að sje ómetanleg lyftistöng fyrir hjeraðið. Jeg þykist líka mega fullyrða það, eftir samtölum við landssímastjóra, að hann telji brýna þörf á þessari línu, ekki einungis vegna þessara sveita einna, sem í hlut eiga, heldur yfirleitt til þess að koma símasambandinu við Vesturland í gott horf. Það gegnir því furðu, að ekkert skuli hafa verið framkvæmt í þessu efni, og er ekki nema eðlilegt, að sýslubúum sje farin að leiðast biðin. Þess vegna er nú fyrirspurnin komin fram.

Og það er þess furðulegra, þegar hægt er að staðhæfa, að símastjóri hefir sagt bæði mjer og öðrum, að aldrei muni símasamband milli Reykjavíkur og Vestur-Ísafjarðarsýslu komast í lag fyr en þessi lína er komin.

Jeg býst nú við, að stjórnin berji því við, að fje hafi ekki verið til til þessara framkvæmda. Og jeg mun ekki telja, að hún fari þar með ósannindi, en fullyrði þó, að ef engin símalagning á að eiga sjer stað fyr en afgangsfje er í ríkissjóði, þá verði það aldrei.

Jeg gat þess í sambandi við annað mál, að ef bráðar framkvæmdir ættu sjer stað, þá mundu hjeraðsbúar gera þetta svo ódýrt fyrir ríkisstjórnina, sem mögulegt væri, t. d. að því er flutning efnis og annað þess háttar snertir. Því hefir nú verið barið við, að efni til símalagningar væri svo dýrt, að ekki væri unt að ráðast í símalagningar. Ekki vil jeg gera lítið úr slíkri ástæðu, en þar sem alt virðist nú vera að lagast, vonar maður, að framkvæmda í þessu verði ekki langt að bíða. En það er einmitt tilgangurinn með fyrirspurninni að vita, hvað hæstv. stjórn segir um það atriði.

Eins og gefur að skilja, þá getum við flm. ekki lagt fram neinar áætlanir til að sýna, hvaða tekjur gætu orðið hjer. En það er þá ekki heldur neitt aðalatriði, því aðalatriðið er, að símakerfið í heild sinni borgi sig fyrir landið. Og jeg vil geta þess, að jeg tel illa farið, að hagur landsins skuli hafa orðið svo bágborinn, að þurft hefir að taka tekjur símans til annara útgjalda en símalagninga. Með tilliti til þess, að öllum er ljóst, hve mikilsvert það er fyrir hjeruð landsins að hafa síma, þá hafa menn gert sjer hinar glæsilegustu vonir um, að hæstv. stjórn, þing og símastjóri mundi gera sitt til að koma þeim í framkvæmd, og þó sjerstaklega með tilliti til þess, að þegar sími var lagður til Vesturlands, þá sást, að þessa leið hefði hann átt að liggja.

Mál þetta var nú komið svo langt, að loforð hafði fengist fyrir lagningu síma til Króksfjarðarness, en ekki verið efnt, vegna dýrtíðar, að sagt er. En jeg vona nú, að með sól og sumri vakni mál þetta til veruleikans og stjórnin geri það, sem hún geti. En um þetta viljum við nú fá einhverjar upplýsingar hjá hæstv. landsstjórn sjálfri, til þess að geta flutt þær hjeraðsbúum.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þennan fyrri lið fyrirspurnarinnar, á meðan mjer ekki er gefið neitt sjerstakt tilefni til þess, en það kann nú að verða síðar, heldur snúa mjer að síðari liðnum.

Hv. þm. Dala. flutti, ásamt mjer og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), till. á þinginu 1919 um að skora á stjórnina að færa póstferðir í Dala- og Barðastrandarsýslum í það horf, sem þær voru áður. Samgöngumálanefnd lagði til, að málinu yrði vísað til stjórnarinnar, en mjer er ekki ljóst, að hæstv. stjórn hafi í neinu látið þetta mál til sín taka, og engu þar um breytt. Jeg þykist nú vita, að hv. þm. hafi rekið sig á áskoranir, sem liggja hjer frammi, frá íbúum Austur- Barðastrandarsýslu, um að færa aftur í gamla horfið. Það mun nú hafa vakað fyrir póstmálastjórninni, að þessi breyting ætti að vera til sparnaðar. Jeg hygg nú, að þótt sparnaður hafi verið á einu sviði, þá hafi hans ekki gætt á öðru. Eins og kunnugt er, þá lá póstleiðin um Arngerðareyri, þorskafjarðarheiði, Króksfjarðames, Hjarðarholt og Borgrnes. Þorskafjarðarheiði er mjög fjölfarin, og má óhætt slá föstu, að það er ekki lítils virði, að á erfiðri heiði sje svo tryggilega um búið hvað vörður og vegi snertir, sem best má vera, og það leiðir af sjálfu sjer, að þegar hún er póstleið, þá er betur stutt að þessu.

Enda var svo áður en þessu var breytt, og heiðin var orðin alveg ágæt yfirferðar upp á síðkastið. Enn fremur er það mikill kostur að geta notið fylgdar póstsins yfir þessa heiði, og svo líka frá Borgarnesi og til Barðastrandarsýslu, eða úr Barðastrandarsýslu til Borgarness. Nú fer pósturinn frá Ísafirði um Arngerðareyri, Steingrímsfjarðarheiði, um Tungusveit til Hólmavíkur, um Gröf í Bitru til Staðar í Hrútafirði, og þaðan til Borgarness. Með þessu lagi hefir hinu beina sambandi milli Barðastrandarsýslu og Dalasýslu verið slitið.

Á næsta nýári fá þó Dalamenn nokkra bót, þar sem þeir fá póst frá Borgarnesi í Búðardal. Jeg skal nefna dæmi, að með því fyrirkomulagi, sem nú er, þá mundi brjef, er ætti að fara úr Barðastrandarsýslu í Saurbæinn, fara til Staðar í Hrútafirði, þaðan með Stykkishólmspósti til Búðardals í kringum Klofning, og þaðan til Stórholts í Saurbæ. Og hljóta allir heilskygnir menn að sjá, hversu óhagstætt slíkt fyrirkomulag er.

Að þetta hafi svo mikið að segja út af fyrir sig, því skal jeg ekki slá föstu, en óhætt er að fullyrða, að allmikið verða þessi brjef seinni í ferðum með þessu fyrirkomulagi.

Jeg býst nú við, að till. þeirra, er hafa látið sig þetta mál svo mjög skifta, sem sje Strandamanna, hafi mátt sín mikils, enda þeir gert sitt ítrasta. Og jeg lái þeim það ekki, og vil víst ekki fara í reipdrátt milli hjeraðanna. En hins vegar sje jeg þá ekki heldur, að hægt sje að lá íbúum Austur-Barðastrandarsýslu, þótt þeir sjeu ekki ánægðir og óski þess, að breyting verði á því fyrirkomulagi, sem nú er.

Nú hafa kunnugir menn hreyft því, og jeg held aðalpóstmeistari fallist á það, að leiðin liggi um Þorskafjarðarheiði og Króksfjarðarnes, frá Kleifum í Gilsfirði yfir í Gröf í Bitru og til Staðar í Hrútafirði. En svo taki sig aftur póstur upp að norðan, sem fari um Kleifar í Gilsfirði til Stórholts og Búðardals.

Kæmist þetta á, þá er að minsta kosti að nokkru leyti fullnægt þörf Barðastrandarsýslu, og svo kæmist aftur á samband milli hennar og Dalasýslu.

Þegar við hv. þm. Dala. (B. J.) fluttum þessa fyrirspurn, hafði jeg engar vonir um breytingu, en síðan hefi jeg fengið dálitla ástæðu til að vona, að úr þessu verði bætt, svo að jeg eftir atvikum held, að hlutaðeigandi hjeruð mætti láta sjer vel líka. Byggi jeg þessar vonir mínar á tali mínu við aðalpóstmeistara, og þótt hann hafi ekki gefið full loforð, þá held jeg, að þegar alþektur heiðursmaður segir: „Jeg held það geti orðið svona“, þá sje eitthvað á því að byggja.

Jeg þykist vita, að hjer í deildinni sjeu menn, er geta upplýst, að hjer sje ekki verið að fara fram á neitt, sem er ófyrirsynja að minnast á. Get jeg þar nefnt þá hv. þm. Ísaf. (J. A. J.), hv. þm. Str. (M. P.) og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Í sambandi við hv. þm. Str. (M. P.) vil jeg geta þess, að þótt hann vilji vera sem allra sanngjarnastur, þá lái jeg honum ekki, þótt hann telji sjer ekki skylt að mæla með þeim breytingum, sem ef til vill kæmu hans hjeraðsbúum illa. Jeg býst þá við, að jeg og hv. þm. Dala. (B. J.) höfum ástæðu til að ætla, að seinni lið till. verði fullnægt frá næsta nýári, en jeg teldi þó vel farið, ef hæstv. atvrh. (P. J.) ljeti í ljós álit sitt um þetta mál, og sjerstaklega vildi jeg heyra af vörum hans, hvort það hefði við rjett rök að styðjast, að hæstv. atvrh. (P. J.) hafi mælt á móti því, að sambandið við þessi hjeruð yrði eins og áður. (Atvrh. P. J.: Mælt á móti við hvern?). Ja, jeg geri ráð fyrir, að hæstv. atvrh. (P. J.) viti, hvern jeg á við. (Atvrh. P. J.: Við hvern? Við hvern?). Líklega á jeg ekki við óviðkomandi menn, svo hæstv. atvrh. (P. J.) getur svarað sjer sjálfur. Jeg vil ekki fara að nefna nein nöfn hjer. (Atvrh. P. J.: Þá er það ekki svaravert). (B. J.: Annaðhvort er það póstmeistari eða samviska ráðherrans sjálfs!). Það má vera, að það sje þá ekki svaravert, en mjög er þetta óvingjarnlega mælt af hæstv. atvrh. (P. J.), en jeg vona nú samt, að hann sýni stöðu sinni þann sóma að upplýsa þetta mál, sem ekki er af neinum illum vilja fram komið.

Að svo komnu finn jeg ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Eins og jeg hefi sagt, þá geri jeg mjer góðar vonir um seinni liðinn, en vænti upplýsinga um þann fyrri.