02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jón Sigurðsson:

Það er vegna nokkurra orða, sem fjellu í garð samgmn., að jeg bið mjer hljóðs. Hefir gerðum hennar verið fundið margt til foráttu. Raunar hefir nú háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) tekið af mjer ómakið með sumt, með skýringum sínum, en þó eru nokkur atriði eftir, sem jeg vildi minnast á. Háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) sagði, að ferðir Suðurlands væru svo óvissar, að nær einskisnýtar væru. Jeg hefi nú athugað ferðaáætlun skipsins, og telst mjer svo til, að það hafi um 80 frídaga. Mætti það undarlegt heita, þar sem skipið hefir mjög stuttar áætlunarferðir, að því dveldist svo mjög, að það hefði eigi tíma til þess að fara austur. Því er jeg aftur á móti meðmæltur og tel rjett, að stjórnin hlutist til um það, að rík áhersla verði lögð á, að skipið fari þessar ferðir.

Annað atriði var það, að komið hafa fram raddir um, að það væri ekki æskilegt að verja fje til ferða Goðafoss, því að skipið kæmi hvort sem væri á þessar sömu hafnir. Jeg hygg, að þessi ummæli komi til af því, að menn hafi ekki gert sjer nægilega ljóst, hver munur er á föstum áætlunarferðum og öðrum ferðum. Munurinn er þó greinilegur. Þegar um óákveðnar ferðir er að ræða, er auglýst, að skipið komi á þessar og þessar hafnir, ef flutningur fæst. Það er því sífeld óvissa um það, hvort skipið muni koma á staðinn eða eigi. Auk þess er nú mjög hætt við því, sökum verðfalls á vörum og lítils gjaldþols, að kaupmenn og kaupfjelög veigri sjer við að fá miklar vörur í einu, heldur smátt og smátt, og gæti þá farið svo, að aldrei fengist nægilegur flutningur á smærri hafnirnar. Mundi þá niðurstaðan af þessu verða sú, sem og oft hefir áður orðið, að vörum, sem fara ættu t. d. til Fáskrúðsfjarðar, væri skipað upp á Seyðisfirði, vörur til Blönduóss færu til Akureyrar o. s. frv. Leiðir af þessu hið mesta óhagræði og kostnaðarauki, og mundi það þykja þungbær skattur, ef hið opinbera legði hann á. Þetta vildi jeg benda háttv. þingd.m. á, því að sumum virðist eigi vera þetta nægilega ljóst, þótt undarlegt megi virðast, því að fátt hefir almenningur verið óánægðari með undanfarin ár en einmitt þetta. Og það, sem rjeði mínu atkvæði í nefndinni, var einmitt þetta, að fá tryggingu fyrir því, að vörurnar kæmust á rjettum tíma í hverja sýslu. í sambandi við þetta skal jeg geta um það, að samgmn. fór fram á það við forstjóra Eimskipafjelags Íslands, að viðkomustöðum Sterlings væri fjölgað, einkum á Austfjörðum, og samþykti hanm það. Þá hefir verið beinst að samginn., fyrir það, að gloppa væri í tillögum hennar viðvíkjandi ferðum til Hornafjarðar. Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir tekið fram ástæður nefndarinnar þessu viðvíkjandi. Skal jeg að vísu viðurkenna það, að Hornafjörður er illa settur og hefir ekki fastar áætlunarferðir, en samgöngur hefir hann þó, eigi svo litlar, en alt fyrir það mundi samgmn. hafa tekið til greina, ef komið hefðu sanngjarnar umleitanir frá háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) til hennar, um styrkveitingu til samgangna millum Hornafjarðar og Djúpavogs, sem endastöðvar, en því var ekki að heilsa.

Gangi það fram hjer í háttv. deild, að Austfirðir fái þrefaldar ferðir, Goðafossferðir frá útlöndum, tíðar Sterlingsferðir og auk þess bátaferðir frá Hornafirði til Skálavíkur, þá er svo komið, að við Norðlendingar getum eigi lengur setið hjá. Við munum þá heimta flóabátsferðir við 3. umr. málsins, og mun fáum blandast hugur um, að við höfum jafnmikla þörf, því það er víða á höfnum norðanlands, sem Sterling kemur ekki við. En um þetta skal jeg ekki ræða meira við þessa umr. málsins.

Þá vildi jeg leyfa mjer að svara nokkru því, sem vikið var að mjer í gær. Skal jeg þá fyrst geta þess, að svarið, sem jeg fjekk viðvíkjandi fyrirspurn minni um meðmæli fjvn. á þinginu í fyrra, gladdi mig. Þótti mjer gott að heyra, að þau hefðu einungis sprottið af umhyggju hjá nefndinni fyrir því, að þingið stæði sem styst, en ekki af lakari hvötum. Út af orðum mínum um 1. lið brtt. vildi háttv. frsm. fjvn. (M. P.) halda því fram, að embættismenn þeir, er jeg nefndi, biskup og landlæknir o. fl., hefðu of lág laun, og vildi með því sanna, að ráðh. hefðu það líka. Jafnframt taldi hann, að raskað hefði verið hlutföllum, er áður voru milli launahæðar ráðherranna og þessara embættismanna, með launalögunum 1919, og það bæri að bæta.

Sje hið fyrtalda ekki spaug hjá háttv. frsm. (M. P.), þá er það mála sannast, að eigi verður sagt, að hann ráðist þar á garðinn, sem hann er lægstur, heldur hleður hann ofan á hann þar sem hann er hæstur, þar sem hann ætlast til að bætt sje við hæstu launin. Þegar launalögin voru sett á þinginu 1919, þá skildi jeg það svo, að launin væru miðuð við, hvað hæfilegt væri að lifa fyrir í þeirri stöðu, sem embættismaðurinn var, en að það væri ekki tilgangurinn að streitast við það að halda einhverjum ákveðnum hlutföllum, sem háttv. frsm. (M. P.) virtist vilja hafa. Virðist mjer, að launin sjeu meir en viðunandi eins og þau eru, og ekki ástæða til að hækka þau, eins og sakir standa.

Þá vildi jeg minnast örfáum orðum á 2. lið. Fór þar nærri getu minni, að fleiri mundu á eftir koma. Eru nú þegar komnir 2 á stúfana, og efast jeg eigi um, að sá seinni sje jafnmaklegur og Ari Arnalds sýslumaður. Býst jeg við, að hjer sje upphaf, en eigi endir á orðinu. Hæstv. forsrh. (J. M.) gat þess, að þetta hefði tíðkast oft áður. Jeg er nú hjer nýgræðingur, enda man jeg eigi, að þetta hafi komið fyrir oftar en einu sinni, sem sje þegar dr. Birni Bjarnasyni frá Viðfirði var veitt það. Sakar og eigi, þó að þetta komi fyrir einu sinni eða svo, en verði það oft, mun þetta verða að fastri reglu, sem erfitt mun verða að komast hjá að fylgja.