21.02.1921
Neðri deild: 5. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

28. mál, bifreiðaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg hefi mjög litlu við að bæta athugasemdirnar við þetta frv., enda er það ekki margbrotið og hefir áður, reyndar í nokkuð annari mynd, verið samþykt í þessari hv. deild. Þess vegna geri jeg mjer mikla von um, að frv. finni náð fyrir augum hv. deildar. Finn jeg, á þessu stigi málsins, enga ástæðu til að fjölyrða um það, en get þess aðeins, að á öllum Norðurlöndum greiða bifreiðaeigendur sjerstakan skatt af bifreiðum, og sá skattur er, að því er jeg best veit, alstaðar hærri en þetta frv. gerir ráð fyrir.

Jeg legg til, að frv. verði, er umræða þessi er á enda, vísað til fjárhagsnefndar.