18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

28. mál, bifreiðaskattur

Frsm. meiri hl. (Þorleifur Guðmundsson):

Fjárhagsnefnd hefir falið mjer að mæla með þessu frumvarpi hæstv. stjórnar, með litlum breytingum. Jafnvel þó að þessi skattur kunni að vera illa þeginn, eins og heyrst hefir hjá háttv. minni hl. og í blaði, sem honum er nákomið, ætla jeg að sýna fram á það, að eftir atvikum sje skattur þessi alls ekki ósanngjarn.

Ástæða þess, að þetta frv. skuli yfirleitt hafa komið fram, er sú nauðsyn, sem allir vita að á því er að afla ríkissjóði tekna, og í þeim tilgangi hefir meiri hl. fallist á frv. Hins vegar hefir hann lagt til nokkrar breytingar, þannig, að skatturinn verði 12 kr. í stað 15 kr., og sömuleiðis, að endurgreiðslan til sveitar- og bæjarfjelaga falli niður, ef bílarnir eru aðeins notaðir innansveita, enda er oft eða altaf erfitt að gera upp á milli í slíkum tilfellum. Með þessari till. nefndarinnar verður skattur á meðalbíl kringum 240 kr. Til samanburðar vil jeg geta þess, að í Danmörku er til samskonar skattur, sem er um 800 kr. á bíl, samkvæmt greinargerð hæstv. stjórnar. Tekjurnar, sem ríkissjóður mundi hafa af þessu, yrðu sennilega um 40–50 þús. kr. á ári, og er það eflaust lítið á móts við þær skemdir, sem bílarnir gera á vegunum. Að minsta kosti þekki jeg það austanfjalls, að viðhaldskostnaður sýsluvega hefir stóraukist eftir að bílar fóru að ganga, og er því ekki nema rjett, að bílferðirnar sjálfar borgi eitthvað af þeim skemdum, sem þær valda. Kostnaðurinn er heldur ekki eins ægilegur, sem leggjast mundi á bílferðalögin með þessum skatti og sumir vilja vera láta. Á ferð frá Reykjavík til Eyrarbakka mundi skatturinn t. d. nema 1 kr. 58 aur., sem auðvitað legðist á fargjaldið. Getur það ekki talist mikið, þegar þess er gætt, hver tímasparnaður, og þar með peningasparnaður, það er að ferðast þetta í bíl á nokkrum stundum, í stað þess að þurfa annars að eyða til þess 1–2 dögum, auk annars kostnaðar, sem legst á slík ferðalög á hestum t. d., svo sem reiðtýgi, reiðfatnaður o. fl. Það er því fjarri lagi, sem háttv. minni hluti heldur fram, að hjer sje verið að skattleggja framfarir. Hjer er aðeins farið fram á það, að þeir, sem framfaranna njóta, leggi dálítið fram til almenningsþarfa af því, sem þeir græða umfram aðra menn á þessum framförum. Þar sem háttv. minni hluti segir einnig, að hann gæti fallist á að taka gjald af bílum, svipað og lestagjald er tekið af skipum, þá er þetta ekki sambærilegt, því að bílaskatturinn er til þess tekinn að fá peninga upp í viðhaldskostnað veganna, sem bílarnir skemma. En hingað til hefir landssjóður ekki þurft að kosta viðhald á þeim vegum, sem skipin fara, sem sje sjónum.

Jeg man nú ekki eftir fleiru en þessu. Jeg hefi ekki heyrt aðrar mótbárur, og þarf ekki að svara því, sem enn hefir ekki fram komið, en reyni auðvitað að gera það, þegar það kemur.

Það er ekki nema eðlilegt, þó að hv. frsm. minni hluta (Jak. M.) taki svona í strenginn; hann er fulltrúi þeirra manna, sem mest nota farartæki þessi sjer til skemtunar.

Jeg hefði getað skilið ískrið í „Vísis“-greinum „Fordanna“, ef skattur þessi hefði aðeins komið niður á bifreiðaeigendum, en nú er það ekki, eins og jeg hefi margtekið fram.

Að svo mæltu vænti jeg þess, að háttv. deild sjái sjer fært að samþ. frv. þetta með þeim breytingum, sem meiri hl. fjhn. hefir á því gert.