07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

28. mál, bifreiðaskattur

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg get teki undir með háttv. frsm. meiri hl. (B. K.), að jeg vildi helst, að enginn skattur væri lagður á bifreiðar og frv. þetta fjelli. — En með því að auðsætt er, að það kemur ekki til mála, þá hefi jeg komið fram með þá brtt., sem er á þskj. 494, og lýtur að því að fella alveg burt skattinn á flutningabifreiðum. — Jeg þarf ekki að taka það fram nú, hve óviðeigandi mjer virðist það, að leggja slíkan skatt á þessi fartæki, sem eru að verða aðalflutningatæki okkar, hjer á Suðurlandi a. m. k.

Auk þess er því svo háttað, að þá er búið að leggja fjórfaldan skatt á bifreiðarnar, þegar þetta frv. er gengið í gegn. Því fyrir utan þennan skatt hvíla fyrir á þeim hátt farmgjald, í sama flokki og silki, tekjuskattur og eignarskattur. Jeg verð því að endurtaka það, að jeg er yfirleitt mótfallinn frv. þessu, en þessi brtt. mín er fram komin í því skyni að miðla hjer málum, eftir því sem unt verður.