11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

28. mál, bifreiðaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Það er bersýnilegt, að þm. Reykv. leggja mikið kapp á, að þetta frv. nái ekki fram að ganga. Mjer finst, að þeir gangi nokkuð langt, ekki síst er þeir tala um bifreiðaskattinn í Danmörku. Jeg verð að segja það, að jeg trúi Jóni Krabbe betur en háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Hann bjó þetta frv. til fyrir okkur eftir lögum þeim, sem gilda um þetta efni í Danmörku. En svo var skatturinn hjer færður niður um helming. Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir aðeins sagt frá lægsta skattinum. Hann getur stigið upp í 45 kr. af hestaflinu á þeim bifreiðum, sem hjer eiga að skattast með 5 kr. eftir brtt. háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), sama og 49 af því, sem hann getur verið í Danmörku. Jeg hefi aldrei neitað því, að skattinum yrði varið til vegaviðhalds. En það er ekki nema eðlilegt, að skatturinn renni í sveitasjóðina í Danmörku, því að þar hafa þær vegaviðhaldið á hendi, en hjer er það ríkissjóður, og er það því hugsunarrjett, að skatturinn renni í ríkissjóð. Það var svo ákveðið í stjórnarfrv., að skattur af bifreið, sem ferðaðist innan einhvers ákveðins lögsagnarumdæmis, skyldi endurgreiðast til þess. En þetta ákvæði feldi nefndin niður. Ef það á að fara að lækka skattinn niður í 5 krónur, þá álít jeg eins gott að sleppa honum. Þá munar sama og ekkert um hann.

Að því er snertir sögu þá, sem háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hafði eftir bifreiðarstjóranum, sem flutti hann upp að Álafossi á dögunum, þá getur hún náttúrlega verið góð, en ekki vil jeg leggja mikið upp úr sögusögnum hlutaðeigandi manna. En ef vegirnir eru svo slæmir, sem saga sú ber vitni um, þá ætti það að vera hvöt til þess að hafa skattinn sem hæstan, því að eftir ákvæðum frv. er ekki heimild til að verja honum til annars en vegaviðgerða.