21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (1262)

31. mál, kosning þingmanns fyrir Hafnarfjarðarkaupstað og skipting Gullbringu og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Stefán Stefánsson:

Brtt. á þskj. 38 hefi jeg flutt eftir eindregnum og endurteknum áskorunum Siglfirðinga. — Bæði í fyrra og aftur nú í vetur skoruðu þeir, með öllum atkv. á fundi, á okkur þm. Eyf. að koma því til vegar, að Siglufjörður yrði gerður að sjerstöku kjördæmi. Jeg hreyfði þessu ekki í fyrra, af því að þá var ekkert reynt að hreyfa við kjördæmaskipuninni í landinu, en úr því að nú var farið að eiga við það mál, þá þótti mjer sjálfsagt að sitja ekki hjá aðgerðalaus.

Siglufjörður er, eins og hv. þm. vita, mjög afskekt hjerað, og samgöngur eru þaðan eða þangað mjög litlar, nema sjóleiðina. Áhugamál þeirra, sem kaupstaðinn byggja, eru og önnur og ólík annara íbúa kjördæmisins, og valda því að ýmsu leyti ólíkir atvinnuvegir. Síldveiðin er sjerkennilegasti atvinnuvegur Siglfirðinga og um leið sá helsti. Safnast þangað fólk svo hundruðum skiftir víðsvegar að, meðan veiðin stendur, til þess að starfa að þessum atvinnuvegi, og mikill fjöldi kaupstaðarbúa vinnur að honum. Annarsstaðar í kjördæminu er þessi veiði lítið stunduð. Skipaútgerð er einnig talsverð á Siglufirði, en hvergi neitt að ráði annarsstaðar í kjördæminu. Árið 1920 voru verslanir þar 19 að tölu, en eiginlega ekki nema 4 annarsstaðar í kjördæminu.

Af þessu má sjá, að erfitt er fyrir þm. Eyf. að vinna fyrir kjördæmi sitt, án þess að það komi að einhverju leyti í bága við hina aðra hluta kjördæmisins, og miðað við fólksfjölda hafa Siglfirðingar sanngirniskröfu til að vera sjerstakt kjördæmi, þar sem við síðasta manntal var þar 1128 manns, en t. d. á Seyðisfirði að eins um 870, og í Norður-Þingeyjarsýslu eitthvað líkt og á Siglufirði. Þetta, og svo hin sjerstöku áhugamál kaupstaðarins, sýna, að hann á kröfu til þessa.

Þá má og láta þess getið, að þarna búa mjög svo mikilshugar og dugandi menn, sem hafa bæði mörg framfarafyrirtæki að vinna að og hugsa sjer að leggja út í þau enn stórskornari, þegar sjer fram úr mestu fjárkreppunni, og svo mikið er víst, að jafnaðarreikningur bæjarsjóðsins er margfaldur móts við reikninga ýmsra sýslna.

En um aðalfv. er það að segja, að jeg tel fulla sanngirni á því, að Hafnarfjörður fái sjerstakan þm. Þar er tvöfalt fleira fólk en á Siglufirði, og auðvitað með öllu sjerskilinn fjárhagur og þar af leiðandi sjerstök og sjerskilin áhugamál, sem annara kaupstaða, en aftur eru staðhættir og atvinnuvegir eigi eins sjerstæðir og á Siglufirði, og er því auðsæilega rjett, að sama verði látið yfir báða ganga. Jeg vona því, að háttv. deild samþ. frv. með brtt. minni, á þskj. 38.