21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (1265)

31. mál, kosning þingmanns fyrir Hafnarfjarðarkaupstað og skipting Gullbringu og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Björn Hallsson:

Jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara, og fyrir þeim fyrirvara vildi jeg gera grein.

Jeg var ekki ósamþykkur niðurstöðu nál., en mjer líkaði ekki orðalag þess. Mjer fanst, að út úr því mætti draga það, að meiri hl. væri samþykkur fjölgun þm. yfirleitt, þegar hin væntanlega endurskoðun kjördæmaskipunarinnar fer fram.

Það vildi jeg ekki gefa í skyn.

Jeg er á móti fjölgun þm. Það veldur kostnaðarauka, bæði vegna launa og líka vegna langra umr. Umr. virðast verða því lengri, sem fleiri eru saman í deild, og er líklega eðlilegt. Aftur eru lítil líkindi til, að fjölgun þm. bæti meðferð mála eða niðurstöður, eða verði þess valdandi, að meiru verði afkastað á skemri tíma. Í þessu sambandi má benda á þm.-fjölda í hvorri deild. Hjer í hv. Nd. eru helmingi fleiri þm. en í hv. Ed. og verður ekki um það deilt, að hjer er miklu meira en helmingi meira flutt af óþörfum, eða að minsta kosti mismunandi þörfum, ræðum en í Ed. Aftur á móti verður ekki sagt, að Ed. vinni ver að niðurstöðum mála en við hjer í Nd. Yfirleitt hefir allur ræðufjöldinn hjer í deildinni lítil áhrif á úrslit málanna. Það er margreynt.

Þó er jeg ekki á móti þessari umræddu endurskoðun kjördæmaskiftingarinnar, og teldi jeg þá breytingu heppilegasta, að tvímenningskjördæmum væri skift og landið alt gert að tómum einmenningskjördæmum, og væri þá reynt að láta þá lenda saman, er skyldasta atvinnuvegi stunda. Þyrfti þá ekki endilega að binda sig við sýslutakmörk eða takmörk gömlu kjördæmanna. Þetta mundi verða til hagræðis á margan hátt. Kjördæmin yrðu minni og auðveldari yfirferðar til fundahalda, og þá væri líka úr vegi rutt þeim örðugleika, sem oft hefir brytt á í tvímenningskjördæmunum, að illa hefir gengið að fá samstæða frambjóðendur. Þó að hlutfallskosningar þyki að ýmsu leyti góðar, þá hafa þær þó ókosti; t. d. yrðu kjördæmin, vegna víðáttu, erfið fyrir þm. og frambjóðendur til fundarhalda o. fl.

Annars er það venjulega kjósendafjöldinn, sem fram er færður sem aðalástæða fyrir þm.fjölgun, en á það má ekki eingöngu horfa. Verður í því sambandi einnig að athuga, hvernig hjeruðum er í sveit komið. Hafnarfjörður er vel settur. Hann er skamt frá þingstaðnum, en Siglufjörður langt í burtu og hefir auk þess nokkra sjerstöðu sem útgerðarstaður. Væri því frekar ástæða til að láta Siglufjörð fá þm. en Hafnarfjörð.