15.04.1922
Neðri deild: 48. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (1309)

40. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg óska að gera nokkra grein aðstöðu minnar við þetta frv.

Það er vitanlegt, að hjá öllum þjóðum er lögð hin ríkasta áhersla á það, að dómaskipuninni sje tryggilega fyrir kornið, og þá sjerstaklega æðsta dómstólnum. Það er einnig kunnugt af stjórnmálasögu vorri, að mikill áhugi var á því að ná æðsta dómsvaldi inn í landið. Benedikt heitinn Sveinsson og ýmsir aðrir skörungar börðust fyrir því og komu fram með frv. í þá átt.

En eftir að þetta var fengið, fóru að heyrast einstaka raddir um það, að við hefðum fengið hæstarjett of fljótt inn í landið, en jeg vona, að þessar raddir hafi ekkert bergmál hjer á Alþingi, því jeg vona, að öllum hv. þm. sje ljóst, hversu þýðingarmikið það er að fá úrslit mála sinna hjer heima, og þá líka að þýðingarmikið sje, að vel sje um þennan æðsta rjett búið.

Af þessum sökum er það mjög varhugavert, að Alþingi fari að gera stórkostlegar breytingar á hæstarjetti, undirbúningslítið.

Þessar breytingar, sem hjer er um að ræða, eru mjög miklar. Í fyrsta lagi er trygging sú, sem dómsvaldið nú nýtur, mjög rýrð. Nú er dómarastaðan trygð gegn umboðsvaldinu með beinum stjórnarskrárákvæðum, en samskonar tryggingu á nú, eftir þessu frv., að eins að gefa með einföldum lögum. Í öðru lagi fá dómendur samkvæmt frv. kjör gengi til Alþingis. Veit jeg að vísu, að sumir hafa verið þeirrar skoðunar, að þeir ættu að hafa það, en stjórnarskrárgjafinn hefir álitið nauðsynlegt að svifta þá því, og hygg jeg, að ekki sje rjett að kippa þessari tryggingu í burtu rannsóknarlaust.

Samkvæmt frv. er ætlast til þess, að dómendur kenni við háskólann. Dómarastörfin mundu því verða aukastörf, en kenslan aðalstarfið. En það, sem verst er, störf þessi samrýmast ekki. Þeir menn, sem eiga að vera kennarar við háskólann, verða að temja sjer vísindastarfsemi, en til þess að ná fram verulega á þeirri braut, verða þeir að byrja ungir á þessu og gera það að lífsstarfi sínu. Aftur á móti er sjerstaklega nauðsynlegt, að dómaramir, auk sjálfsagðrar lagakunnáttu, sjeu reyndir menn í skóla lífsins. Auk þess getur orðið árekstur milli hinna þráðbeinu kenninga vísindamannsins og þeirrar niðurstöðu, sem lífið gerir kröfur til að dómarinn komist að, og þetta getur orðið til þess, að hvorki vísindamaðurinn nje dómarinn, ef sameinaðir eru í einni persónu, njóti sín.

Sparnaðurinn að frv. þessu er enginn, en þótt hann væri, mundi jeg samt vera á móti því. Nær lægi að spara með því að fækka dómendum, en þó vil jeg ekkert fyrirheit gefa um það, að jeg væri því fylgjandi. Jeg hefi heyrt því fleygt, að jeg hafi breytt á móti þessari skoðun minni, með því að setja hæstarjettardómara Lárus H. Bjarnason kennara við háskólann. En þó að fordæmi sjeu nú fyrir þessu, þá skal jeg samt játa, að jeg hugsaði mig lengi um, áður en jeg afrjeð það.

En jeg gerði það vegna þess, að nauðsyn bar til að fella ekki niður kensluna, en þessi maður gat tekið við starfinu undirbúningslaust, sem naumast nokkur annar hefði getað. En jeg vil taka það fram, að þetta er að eins til bráðabirgða, og mun jeg fljótlega gera ráðstafanir til þess, að annar taki við kenslunni.

Jeg spurði prófessorana, hvort þeir vildu taka við kenslunni, en þeir kváðust ekki geta það, og því var þessi einn kosturinn, þótt mjer fjelli hann illa.