18.02.1922
Neðri deild: 4. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (1346)

8. mál, kennaraskóli

Forsætisráðherra (J. M.):

Hjer er allmikil breyting gerð frá því, sem nú er. Skólatíminn er lengdur, fyrst og fremst bætt við einu kensluári, og kenslutíminn lengdur hvert árið, og í sambandi við það auðvitað kröfurnar um læringu hertar.

Það er ekki ósanngjarnt að heimta meiri undirbúningsmentun af kennurunum nú en áður. Á meðan kjör þeirra voru ekki bætt var ekki gott að heimta mikið af þeim. Þess vegna er námstíminn lengdur og hert á kröfunum. Á hinn bóginn er öll ástæða til að reyna að nota kenslukrafta kennaraskólakennara sem mestan tíma ársins.

Jeg var samt í miklum efa um, hvort rjett væri, eins og nú stendur, að bæta einu ári við skólatímann, eða gera skólann 4 ára skóla í stað 3. En jeg rjeð það af að láta frv. koma óbreytt fyrir þingið, sem þá gerir út um þetta atriði sem annað. Sjálfsagt kemur þessi breyting fyr eða síðar.

Bætt hefir verið við námsgreinum, ensku eða þýsku, eftir vali nemanda, og þjóðhagsfræði og efnafræði.

Að svo búnu sje jeg ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv.; vona, að hv. nefnd, sem hlýtur að verða hv. mentmn., athugi það vel og vandlega.