27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (1468)

29. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Flm. (Magnús Pjetursson):

Jeg býst ekki við, að jeg þurfi að láta mörg orð fylgja þessu frv., því það er ekki nýr gestur í þessari hv. deild. Það var, eins og menn muna, hjer á ferðinni árið 1919 og var þá afgreitt með rökstuddri dagskrá þess efnis, að vilja sýslunefnda skyldi fyrst leitað í málinu, áður en sameiningin færi fram. Samt sem áður hefir þetta ekki verið gert, enda málinu ekkert hreyft síðan. Nú getur þetta varla talist rjett að farið, þar sem þá var einmitt tekið fram af ýmsum þingdeildarmönnum, að ekki væri til ætlast, að þetta yrði málinu til falls. Jeg hefi um hríð búist við, að stjórnin myndi taka upp málið, en það hefir ekki orðið, og hefi jeg því tekið það að mjer að hreyfa því.

Jeg hefi leitað álits kjósenda minna í þessu máli, og kváðust þeir vel mundu una samsteypunni.

Að öðru leyti skírskota jeg til ástæðnanna, sem fram voru færðar í þessu frv. 1919, og leyfi mjer að leggja það til, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.