17.02.1922
Efri deild: 3. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (1561)

2. mál, lögfylgjur hjónabands

Forsætisráðherra (J. M.):

Eins og getið er í athugasemdunum við frv. þetta, er það eitt af þeim frv. um sifjamál, sem að hefir verið starfað meira og minna sameiginlega á Norðurlöndum, og tekin eru þar víða í lög á hinum síðustu árum sum frv. eða öll. Hjer hafa þegar verið lögleidd þrjú frv. um sifjamál, og hefir hinn sami maður, sem bjó þau út, einnig samið þetta frv., sem hjer liggur fyrir, hæstarjettardómari Lárus H. Bjarnason.

Samskonar lög og frv. þetta gerir ráð fyrir eru þegar komin á í Svíþjóð. En frv. má heita að mestu leyti þýðing á danska frv., en þó aðeins dálítið styttra.

Af lögfylgjum hjónabandsins gætir í frv. þessu sjerstaklega áhrifa hjónabandsins á fjárhag hjónanna og fjárráð.

Yfirleitt hafa konur og karlar jafnan rjett í öllum atriðum að íslenskum lögum. Þó er enn nokkur snefill eftir af misrjetti eða minni ráðum giftrar konu gagnvart manni hennar. Úr þessu á frv. að bæta.

Jeg geri nú eigi ráð fyrir, að háttv. deild hafi öðruvísi skoðun á þessu atriði en yfirleitt um rjett karla og kvenna.

Jeg get helst búist við, að gerðar verði athugasemdir við 12. og 13. gr., þar sem talað er um, að hvoru hjónanna um sig sje heimilt, á ábyrgð beggja, að gera þá samninga við aðra. Hins vegar tel jeg eigi ástæðu til að fara frekar út í frv. að þessu sinni.