16.03.1922
Efri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (1572)

7. mál, einkaleyfi

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Eins og hv. frsm. (K. E.) tók rjettilega fram, þá er hjer eigi um stórvægilegar breytingar að ræða.

Aðalbreytingin, sú, að fela það öllu ráðuneytinu, sem frv. gerði ráð fyrir að fela atvinnumálaráðherra einum, er meira í samræmi við frv. í heild sinni.

Í 8. gr. er talað um atvrh., og svo í 9. og 10 gr. En alstaðar annarsstaðar er gert ráð fyrir, að ráðuneytið alt sjái um framkvæmd frv. Þetta verður því betra samræmi.

Eigi get jeg heldur sjeð neitt athuga- vert við hina aðalbrtt., þá, að leyfið skuli veitast til 15 ára í einu, í stað þess að endurveita það á 5 ára fresti, einkum vegna þess, að leyfið mun ávalt verða veitt að nýju, og gjaldið verður hið sama. Jeg tel það hag fyrir leyfisbeiðanda, að þetta sje þannig, og eins að framkvæmdafresturinn sje lengdur úr 3 árum upp í 5 ár.

Um síðustu eða þriðju aðalbreytinguna, um að fella burtu ákvæðið um það, hvernig ráðuneytið skuli fara að, ef ekki hefir verið sótt um einkaleyfi til annara ríkja, get jeg verið samdóma hv. frsm. (K. E.). Jeg tel það ákvæði þar þýðingarlítið. Að vísu hefir hæstv. fyrverandi stjórn lagt talsverða áherslu á þetta atriði og talið það mikilvægt, en jeg fyrir mitt leyti get enga ástæðu sjeð til að ljetta þessu af umsækjanda.