21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (1753)

61. mál, breyting á hæstaréttarlögum

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg hefi ekkert umboð til þess að taka till. aftur, enda sje jeg ekki, að mjer og hæstv. forsætisráðherra (S. E.) beri svo mikið á milli. Það er rjett, að nefndin leggur aðaláherslu á þau atriði, sem í till. eru talin, en hún vill á engan hátt einskorða stjórnina við þau, og jeg fyrir mitt leyti væri fús til þess að fallast á fleiri breytingar, sem stjórnin kynni að koma með, ef jeg sæi, að þær væru á rökum bygðar. Eins er stjórnin á engan hátt skyldug til að fallast á þær breytingar, sem nefndin leggur til, ef hún getur ekki mælt með þeim eftir nánari rannsókn.

Hæstv. forsætisráðherra (S. E.) efaðist um, að munnlegi málaflutningurinn þyrfti að vera svo dýr. En mjer virðist slíkt liggja í augum uppi. Það hefir t. d. verið lögð alveg ný kvöð á málafærslumennina, að gera nákvæman útdrátt úr öllum málsskjölum, til að leggja fyrir dómarana. Þetta er mikið og vandasamt verk, sem málaflutningsmennirnir voru áður lausir við. Dómararnir áttu þá sjálfir að kynna sjer öll málsskjölin. Annars játa jeg það, að jeg er leikmaður í þessu efni og verð því að byggja mikið á ummælum sjerfróðra manna í þessu máli.

Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp ummæli Sigurðar Þórðarsonar:

„Samning ágripsins veldur í fyrsta lagi gífurlegri hækkun á kaupi málaflutningsmanna. Hún er svo mikið vandaverk og tekur svo langan tíma, ef mál er nokkuð verulegt að vöxtunum, að von er, að málaflutningsmennirnir verði dýrir á henni“.

Síðan bendir höf. á það, að mikið af starfi yfirdómaranna sje með þessu lagt á herðar málafærslumannanna. Jeg býst við því, að þessi glöggi og mæti maður hafi rannsakað þetta mál alvarlega, áður en hann ljet nokkuð frá sjer fara í því efni, og þori jeg því að treysta orðum hans.

Hvað þeirri mótbáru viðvíkur, að óheppilegt sje, ef setja þarf dómara í hæstarjett um lengri tíma, þá er jeg samdóma hæstv. forsætisráðherra (S. E.) í því efni. En jeg lít svo á, að þessi till. gefi eigi ástæðu til að ætla, að svo þurfi að verða, og því engin hætta á ferðum.