22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (1822)

88. mál, saga Alþingis

Bjarni Jónsson:

Það er erfitt að deila við „heilbrigða skynsemi“, sem ekki vill skilja. Þó langar mig til að tala nokkur orð við hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), því að hann vill, að aðrir en sjerfræðingar ráði gerð verksins, og vill láta það vera algilda reglu. Jeg vil þá taka dæmi, sem hann mun skilja, þar sem hann er verkfræðingur. Gerum ráð fyrir, að hann væri búinn að reikna út styrkleika brúar, sem byggja skyldi, en svo kæmi „heilbrigð skynsemi“ Alþingis og næmi svo og svo mikið af styrkleika hvers járns, svo að eftir yrði víravirki, sem varla bæri sjálfs sín þunga. Þætti honum þetta „heilbrigt“? Nei, verkfræðingurinn gerir áætlun og reiknar út alla gerð verksins, en þingið sker úr, hvort vinna skuli verkið. Eins verður það Alþingi hjer, sem gengur að eða frá, þegar sjerfræðingar hafa gert grein fyrir aðaldráttum verksins. Þó mundi ekki hægt að gera nákvæma kostnaðaráætlun, því þótt hægt sje að reikna út prentunarkostnað eftir stærð ritsins, þá er ekki hægt að fá vissu fyrir því, hvað kostar að viða efninu að eða að skrifa ritið.

Hv. þm. (J. Þ.) var að nefna rit í sex bindum, auðsjáanlega til þess að hræða og láta hv. þm. halda, að hjer yrði um einhvern blekiðnað að ræða. Annars má nú fræða hann á því, að mörg sex binda bók hefir verið lesin. Og borið saman við afmælisrit, sem ýms fjelög gefa út, þá virðist mjer ekki neitt ægilegt, þótt 1000 ára afmælisrit Alþingis yrði svo sem tvö væn bindi.

Ef þingsályktunartillagan verður samþykt, þá veldur það því, að fje, sem eytt kynni að verða á þessu ári, kæmi ekki í fjáraukalög fyr en eftir á. Fjárveiting til næsta árs kemur vitanlega í fjáraukalög næsta árs, sem væntanlega verða lögð fyrir næsta þing. Hættan er því sú ein, að stjórnin ausi út stórfje á einu ári. En heldur tel jeg þessa hættu litla og óþarft fyrir hv. þdm. að hræðast hana svo mjög.