12.04.1922
Efri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í D-deild Alþingistíðinda. (2097)

81. mál, brúargerð á Eyjafjarðará

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Hv. 2. þm. Eyf. (E. Á.) hefir lýst staðháttum öllum vel og rækilega, eins og hans var von og vísa, því að enginn er honum kunnugri þar, því að hann hefir búið beggja megin árinnar alla æfi, einmitt þar, sem brúin á að koma. Jeg vil taka undir það með honum, að eitt af aðalatriðum þessa máls er mannúðin. Mjer hefir oft blöskrað að sjá rekstra, sem komnir voru langt að úr Þingeyjarsýslu, ef til vill fremst framan úr Bárðardal, setta í þessar 3 kvíslir í frosti og fjúki, og síðan rekna skjálfandi til Akureyrar til þess að hírast þar úti yfir nóttina, áður en þær urðu fluttar í skip. Það er því rjett hjá hv. þm. (E. Á.), að þessi brú er nauðsynlegri en margar aðrar.

Á þinginu 1917 var veitt fje til þessarar brúar í fjárlögunum 1918–1919, 35 þús. kr. fyrra árið og 50 þús. kr. síðara árið, og var til þess ætlast, að framkvæmdir yrðu hafnar á árinu 1918. En úr því varð þó ekki, af „eðlilegum ástæðum“, segir vegamálastjóri, og meinar hann vafalaust með því, að ómögulegt hafi verið að fá það efni frá útlöndum þá, sem til verksins þurfti. En á því ári var þó lokið aðalrannsókn á brúarstæðinu, og mælingum öllum. Eyfirðingar voru ekki ánægðir með þetta, og í nóvember það ár sendi dýrtíðarnefnd bæjarstjórnarinnar á Akureyri stjórnarráðinu símskeyti, þar sem skorað var á stjórnina að láta undirbúa verkið þá um veturinn, svo sem með vegalagningu að vestanverðu, grjótflutningi m. m., sem bæjarstjórnin gæti látið vinna sem dýrtíðarvinnu þá um veturinn. En vegamálastjóri varð að ráða frá þessu vegna þess, að kostnaður við alt mannvirkið, með þáverandi prísum, hefði orðið um 170 þús. kr., en það þótti fjárhag landsins um megn. Var bæjarstjórninni tilkynt þetta. Annað hefir ekki gerst í málinu fram að síðastliðnu hausti, að undirbúningur var hafinn á ný.

Það, sem gert hefir verið nú, er það, að efni hefir verið tekið austan megin árinnar og ekið út undir Kaupang. Þetta verk hefir orðið mjög ódýrt, því að það hefir verið unnið í samningsvinnu, og miðað við 60 aura um tímann. Þá var svo til ætlast að byrja framkvæmdir á þessu ári, en þegar til kom, voru svo margar brýr, sem þurftu endurbyggingar og viðgerða, að þáverandi stjórn þótti ekki tiltækilegt að halda áfram vegna hags ríkissjóðs. Þessar ár eru Laxá í Dalasýslu, Tunguá, Leirvogsá, Kotá og Valagilsá, og Ferjukotssíki í Borgarfjarðarsýslu. Jeg vil ekki gagnrýna hjer aðgerðir fráfarandi stjórnar, en eftir mínu áliti átti Eyjafjarðará að ganga á undan öllum þessum brúm, þó að hinar brýrnar sjeu margar hverjar að verða ónýtar og þurfi bráðra aðgerða við, t. d. brúin á Laxá. En þó að ekki sje unt að byggja brúna í sumar, þá má þó gera undirbúning, sem síðar meir flýtir byggingunni, og verður þessi undirbúningur að vera gerður helst ári á undan, ef vel á að vera. Brúnni verður svo háttað, að hún verður 5 minni brýr úr járnbentri steinsteypu. Þessar brýr eiga að hvíla á steyptum stöplum, sem verða bygðir á föstum grunni, og verða þeir helst að standa eitt ár áður en ofan á þá er bygt. Þessir stöplar verða reistir í sumar, og kostnaður við það verður um 12 þús. kr. Þegar þessa er gætt, þá held jeg, að Eyfirðingar ættu að geta sætt sig við þessa ráðabreytni, og vona jeg, að brúin verði eitt hið fyrsta mannvirki, sem ráðist verður í. Hæstv. forsætisráðherra (S. E.) hefir hjer áður nefnt hælið á Kleppi, og er það víst, að það er bráðnauðsynlegt, en jeg vona, að brúin fái að verða því samferða.

Það er rjett, að lánsfje hafði verið tekið í þessu skyni, en í fjárþröng ríkisins varð að grípa til þess til annars, og er það alt komið undir því, hvernig skipast með hag ríkisins, hvenær hægt verður að inna þetta verk af hendi.

Það er ekki svo langt síðan þessi stjórn tók við, að hún geti gefið nokkra fullnægjandi skýrslu um fjárhaginn, en vonandi verður það hægt áður en þessu þingi er lokið. Þó má alls ekki við því búast, að hægt verði að veita 150 þús. kr. til brúargerðar í sumar, enda væri það lítt mögulegt að byggja hana í sumar, þótt nægilegt fje væri fyrir hendi, þar sem ekki er hægt að byggja brúna fyr en ári eftir að stöplarnir hafa verið reistir. En jeg get lýst yfir því, að ekki skal standa á mjer, ef fært verður að byggja brúna, því jeg veit, hve nauðsynleg hún er.