19.04.1922
Neðri deild: 50. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Strangt tekið er jeg einnig, eins og háttv. þm. Str. (M. P.), framsögumaður nefndarinnar, en það atvikaðist svo í dag, að jeg varð framsögumaður minni hlutans.

Mjer þykir hlýða, nú þegar fjárlögin eru að kveðja þessa háttv. deild, að líta örlitla stund á fjármálastefnu þingsins.

Það hefir heyrst og kveðið hátt við, að hagur þessa lands væri nú mjög bágborinn og að það þyrfti að neyta allrar orku og visku til að bjarga landinu úr þeim voða, sem það væri statt í. — En það bregður svo undarlega við, að höfuðáherslan hefir verið lögð á að nurla. Menn hafa lagt kapp á að nurla saman fáum þúsundum, máske tugum þúsunda, en tæplega svo miklu, að næmi hundrað þúsundum, þótt næði fram að ganga.

Eitt hafa menn samt ekki athugað, hvort mannsmorð, sem drýgt væri með nurli, gæti orðið bjargráð fyrir þjóðina. Jeg er þannig skapaður, og mun deyja með þeim annmarka, að mjer finst ekki að svo muni vera. Jeg veit ekki betur en að dýrasta eign þjóðarinnar sje mennirnir. Jeg veit engan sparnað meiri en að spara mannslífið og vinnukraftinn á öllum sviðum og sjá um að þjóðin njóti sem best hvers einstaklings, og það því fremur, sem meira er í manninn varið og því merkilegra sem starfssvið hans er.

En hjer hafa menn setið á þingi og nurlað fyrir hönd landssjóðs, svo sem væri hann kerling, er ætti sjer sparisjóðsbók og hugsaði um það eitt, að eigi væri meira tekið úr henni en í hana látið. Menn hafa horft á þennan tölujöfnuð sem væru þeir starblindir, en gleymt því, að oss hefir eigi enn orðið að meini landssjóðsþurð, og hefði þó mátt búast við, að háttv. Alþingi hefði litið á aðalatriði málsins, gjaldeyrisvandræðin, sem stafa af því, að afurðir landsins hafa ekki selst, og að það hefði þá lagt áherslu á að auka framleiðslu og nýtni hjá þjóðinni, því að það er bjargráðið til handa landi og þjóð, mönnum hennar og málefnum.

Í því sambandi dettur mjer í hug það, sem í daglegu tali er talið auðvirðilegt, en það er slor og þorskhausar.

Jeg er viss um, að með því að afnema hin heimskulegu gjöld, útflutningstollinn, á þeim atvinnuvegi, sem hnígur að því að gera slor og þorskhausa að útflutningsvöru, hefði unnist miklum mun meira en við allar till. háttv. sparnaðarnefndar til samans. Á því einu hefði mátt vinna miklu meiri hagsbætur þessari þjóð til handa heldur en þótt feld hefðu verið niður nokkur embætti. Og þetta hefði verið hjálp á rjettum stað, því það hefði verið aukning á gjaldeyri vorum erlendis, hvað þá ef stærra hefði verið á stað farið og atvinnuvegunum sýndur meiri sómi. Hitt hefi jeg aldrei vitað bæta úr gjaldeyrisskorti neinnar þjóðar, að svifta innlenda menn atvinnu.

Í sambandi við þessa skoðun mína er það, að jeg hefi ekki getað fallist á þá tillögu, sem lýst hefir verið fyrir hönd meiri hluta fjárveitinganefndar, að samþykkja fjárlagafrv. óbreytt. Jeg skil ekki þá fjármálastefnu, sem gerir það að meginatriði að samþykkja engar breytingartillögur; þá finst mjer einmitt fara að eiga við þau orð, sem háttv. frsm. (M. P.) notaði í öðru sambandi, að þingið væri að svifta sjálft sig fjárforræði, því að hvað er það annað, ef þingið er svo hrætt við að skemma sitt eigið verk, að það þorir ekki að leyfa brtt. að komast að, hversu sjálfsagðar sem þær eru.

Þá er og annar munur á fjármálastefnu minni og margra annara hv. þm. Jeg hefi aldrei skilið það, að alt væri unnið, þótt fenginn væri tölujöfnuður á fjárlögunum, svo að á standist áætlunartölur tekjumegin og gjöldin. Þar stendur nú svo á, að flestar tölur tekjumegin eru áætlunartölur, sem hljóta að breytast mjög. Eftir því, sem fyrv. fjármálaráðherra (M. G.) lýsti hjer fyrir oss í nákvæmu yfirliti, hafa tekjur og gjöld farið fram úr áætlun árið sem leið um 100–300%. Það getur því vel farið svo, að halli verði enginn í framkvæmd, þótt nokkur sje á fjárlögum, og eins getur brugðist til beggja vona um hinn raunverulega jöfnuð, þótt tölujöfnðuður sje hnitmiðaður í 20. gr. fjárlaganna. Hallinn er því að mestu leyti draumur, sem enginn veit, hvernig ræðst.

Þessi kveðjuorð vildi jeg láta fylgja fjárlögunum. Og þar sem um bein stefnuatriði er að ræða, hefi jeg ekki getað beygt mig, heldur hefi jeg fylgt sannfæringu minni og borið hjer fram brtt. Er það þó eigi af því, að jeg sje ósamvinnuþýðari en aðrir menn, heldur get jeg eigi látið klína á mig þeim skoðunum, er jeg tel heimsku eina.

Ástæðan til þess, að jeg ber fram þessa brtt., sem er 2. liður á þingskjali 255, er sú, að hv. efri deild hefir tekið upp fjárveitingu til fjelags eins, sem nefnir sig „Dansk-Islandsk Samfund“. Þessa fjárveitingu vil jeg fella niður. Það er þó ekki af óvild til þessa fjelags. Jeg veit, að þar eru ýmsir góðir menn, og get jeg vel skilið, að þeir hafi áhuga á því, sem á að vera markmið fjelagsins, en það er að kynna Ísland í Danmörku, þótt mjer þyki það eigi svo mikils vert sem þeim. Ekki lít jeg heldur svo á, að þetta sje sjálfsagt að styrkja; þó legg jeg ekki kapp á það, að styrkurinn sje ekki veittur. En það er annað, sem gerir það, að jeg hlýt að gera þá till., að þetta falli niður að sinni. Hv. efri deild hefir sem sje ekki tekið upp annað fjelag, sem þó hefir haft styrk áður. Það er fjelagið ,,Íslendingur“, sem stofnað er í því skyni að halda við íslensku þjóðerni í annari heimsálfu. Alt það, sem því fjelagi getur áunnist, má verða mjög mikilsvert fyrir oss. Þar í Vesturheimi mun nú vera alt að því þriðjungur allra Íslendinga, og skiftir því eigi litlu, hvort þeir glatast íslensku þjóðerni að fullu og öllu eða það lifir þar og blómgast. Búa þeir þar með einni stærstu þjóð heimsins og má það oss miklu varða, hversu Íslendingsnafninu er þar uppi haldið. Getur það verið oss, sem hjer heima búum, ærinn ávinningur að eiga þar góða hauka í horni. Hefir það og enda sýnt sig, að Vestur-Íslendingar hafa jafnan brugðist vel við til þess að verða oss samtaka um þrifamál Íslands. Er ekki langt að minnast hluttöku þeirra í stofnun Eimskipafjelags Íslands, og fleira mætti nefna. En mest tel jeg þó um vert, ef það tekst að forða því, að þessir menn glatist íslensku þjóðerni. Ekkert slíkt vinnur hitt fjelagið, Dansk-Islandsk Samfund. Afleiðingin af þess starfi mun fremur verða sú að blanda íslenskt þjóðerni, þótt það sje ef til vill ekki beinlínis tilgangur fjelagsins.

Það var þetta, sem jeg gat ekki þolað, að hv. efri deild skyldi taka upp annað fjelagið, en ekki hitt, og það einmitt danska fjelagið, en sparka í íslenska fjelagið. En ef nú hv. deild vill ekki spara þessar krónur og fella liðinn, eins og aðaltillaga mín fer fram á, þá hefi jeg aðra tillögu til vara, svo sem hv. þm. hafa sjeð á þingskjali 255. Hún fer fram á að taka fjelagið ,Íslending“ líka upp með ofurlítinn styrk. Að rjettu lagi hefði það aldrei átt að falla niður, úr því það einu sinni var tekið inn í fjárlögin. Þó verð jeg að segja, að jeg læt mjer nokkurn veginn lynda, hvor till. mín verður samþykt. En að fella niður það fjelagið, sem er íslenskt og vinnur að viðgangi íslensks þjóðernis, og taka hitt upp, sem ekkert gerir í þá átt, það er þjóðarskömm, sem jeg vil ekki láta mitt nafn vera bendlað við. Fyrir því hefi jeg borið fram þessa brtt. og reynt að leiða Alþingi í þann voða að lagfæra sín eigin verk.