17.02.1922
Neðri deild: 3. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

11. mál, skattmat fasteigna

Fjármálaráðherra (M. G.):

Eins og vitanlegt er, hefir fjöldi húsa verið reistur um alt land, sjerstaklega í kaupstöðum og kauptúnum, síðan allsherjarskattmat það fór fram, sem gengur í gildi 1. apríl næstkomandi. Það er og öllum vitanlegt, að eignir þessar eru skattskyldar bæði til fasteignaskatts og eignarskatts og tekjuskatts, og eins það, að húsum þessum fjölgar árlega. En hinum gildandi faseignamatslögum er þannig háttað, að vafasamt er, hvernig meta á eignir þessar til skatts eða hverjir skuli gera það. Hinsvegar verður skattmat að fara fram, því að um annað mat sem skattgrundvöll getur ekki verið að ræða.

Það er tilætlun þessa frv. að bæta úr þessu á þann hátt, að ekki fylgi mikill kostnaður matinu, því að það verður lítið gagn að skattinum, ef mikill hluti hans fer í matskostnað.

Nýtt skattmat getur og farið fram eða þurft að fara fram af öðrum ástæðum en þeim, að mat hafi eigi áður farið fram. Slíkt getur komið fyrir bæði vegna verðhækkunar og verðrýrnunar eigna, vegna sundurskiftingar þeirra, vegna útmælinga nýrra lóða o. s. frv. Eðlilegast virðist, að slík endurmöt fylgi sömu reglu og frummöt, sem fara fram til næsta allsherjarmats, enda er gert ráð fyrir þessu í frv., því að það mun spara töluverðan kostnað. Það segir sig sjálft, að það er ekki hyggilegt að sækja menn í fjarlægar sveitir til að meta til skatts t. d. 1 eða 2 smáhús, en svo yrði þetta oft, ef matið ætti að framkvæmast eftir reglum gildandi fasteignamatslaga. Margra ára skattur gæti jafnvel á þennan hátt farið í kostnað.

Jeg vona, að háttv. deild taki þessu máli vel, því að lög um þetta efni eru nauðsynleg og munu spara töluverð útgjöld.

Mál þetta tel jeg, að sje á verksviði fjárhagsnefndar, og leyfi mjer því að leggja til, að því verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til þeirrar nefndar.