15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

37. mál, dýraverndun

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Jeg verð að játa, að mjer finst framkoma háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) dálítið kátleg í þessu máli. Hann og háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) fluttu brtt., er fór fram á, að þetta ákvæði yrði afnumið. Höfðu þeir þá eingöngu Drangey fyrir augum, enda kom það mjög berlega fram í ræðum þeirra. Þeir hljóta því að hafa skift um skoðun síðan. Þá hjeldu þeir að minsta kosti, að lögin hefðu beinlínis áhrif á veiðiskapinn í Drangey, og það tvímælalaust.

Annars er allundarlegt þetta mikla kapp, sem þeir leggja á, að ekki verði hróflað við veiðiaðferðinni, sem nú er höfð, þó máske mætti finna aðra betri, því aldrei hefir verið ætlast til, að veiði yrði látin falla niður. Aðeins að veiðiaðferðin yrði mannúðlegri.