17.03.1922
Neðri deild: 25. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Í sambandi við ræðu háttv. frsm. (B. J.) vil jeg skýra stuttlega frá því, hvernig málinu nú horfir. Í fyrra var það afráðið í samráði við þingið að reka Helgustaðanámuna á ríkiskostnað og halda rekstrinum aðgreindum út af fyrir sig. Var í þessu skyni fengið loforð fyrir 70000 kr. láni og námaverkfræðingur ráðinn til starfans.

Fje þetta er ekki alt notað enn og árangurinn heldur ekki fenginn, því að þegar Helgi Hermann námaverkfræðingur kom austur, vildi hann haga greftinum öðruvísi en Frakkar höfðu gert. Var verkfræðingurinn fyrir austan síðastl. sumar og var unnið þar að námugreftinum og nokkuð í vetur, og nú er hann farinn austur. En vegna þessarar breytingar á rekstrinum hefir lítið eða ekkert verið unnið enn af nothæfu silfurbergi, en hann býst við, að geta fengið það í sumar. Eftirspurnin er gífurlega mikil frá mörgum löndum, meðal annars hafa komið fyrirspurnir frá Japan til stjórnarráðsins, og alstaðar er kvartað um vöntun á því. Hefir stjórnarráðið svarað þessum fyrirspurnum og sagt, að byrjað væri nú á vinnunni, og að það mundi geta fullnægt eftirspurninni á komandi sumri.

Helgi Hermann telur, að hægt muni að vinna um 3000 kg. af nothæfu silfurbergi á ári, og varlega áætlað, að verð á kg. sje 12 kr. Verða það 36000 kr., en rekstrarkostnað telur hann að muni verða um 20000 kr. Verður þá tekjuafgangurinn um 16000 kr.