03.03.1922
Neðri deild: 13. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

27. mál, skipting Húnavatnssýslna í tvö kjördæmi

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er rjett, sem getið var um núna í umræðunum, að það kom fram áskorun til stjórnarinnar á þinginu 1920 um að endurskoða kjördæmaskiftinguna. En það er verk, sem ekki verður hrapað að, og jeg býst við, að háttv. þm. hafi ekki vænst þess, að það kæmi fram á næsta þingi. Jeg hefi að vísu athugað mál þetta nokkuð og var kominn langt á leið með að undirbúa frumvarp um nýja kjördæmaskipun, en hætti við það vegna þess, að oss ráðherrunum kom saman um, að rjett væri að leggja aðeins fáein stjórnarfrv. fyrir þetta þing, því að vjer töldum rjett, að þingið væri sem styst í þetta sinn, og bygðum á því, að það væri almennur vilji þingmanna.

Úr því þetta kom til umræðu, þá get jeg látið skoðun mína í ljós um það, hverja leið eigi að fara við nýja kjördæmaskipun, og það er að byggja á grundvelli stjórnarfrumvarpsins frá 1907. Hannes Hafstein, sem þá var ráðherra, hafði lagt mikla vinnu og alúð við frumvarp þetta, og var jeg byrjaður að breyta því eftir þeim breytingum, sem síðan hafa orðið, og hygg jeg varla betra veg fundinn verða í þessu máli.