03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

71. mál, kennsla heyrnar og málleysingja

Bjarni Jónsson:

Það má segja það sama um Alþingi, ef það fellir þetta frv., eins og sagt var um Njál forðum, að það sje misviturt — eða öllu heldur misgjöfult. Það veigrar sjer við að bæta kjör þeirra manna, sem frá náttúrunnar hálfu eru svo grátt leiknir sem þessir, og kveður það vera í sparnaðarskyni, en hefir þó nýlega neitað að spara undir hálfa miljón króna þar, sem lítil eða engin þörf er á fje. Þykir mjer þær fara heldur undarlega saman skoðanir manna á þessum hlutum. Jeg á bágt með að skilja, ef ekki er hægt að trúa heimilunum fyrir kenslu heilbrigðra barna, að þeim muni betur takast með að kenna mállausum börnum og heyrnarlausum. Þar eð menn vildu ekki spara fje til að kenna heilbrigðum börnum, þá getur það varla verið af sparnaðarástæðum, að menn ætla að neita aumingjum þessum um þessa sjálfsögðu hjálp.

Jeg stóð aðeins upp til þess að benda hv. deild á þetta og heita á hana að gæta meiri mannúðar en hún hefir nú gert.